Sigur í síðasta heimaleik Njarðvíkinga
Þrátt fyrir slakan síðari hálfleik
Þrátt fyrir arfaslakan síðari hálfleik tókst Njarðvíkingum að sigra Snæfell í síðasta heimaleik sínum í Domino's deild karla í körfubolta í kvöld. Liðin skoruðu grimmt í fyrri hálfleik en Njarðvíkingar leiddu þá 60-43. Örugg forysta Njarðvíkinga, en erfiðlega gekk að skora í síðari hálfleik. Í þriðja leikhluta skoraði Njarðvíkurliðið aðeins 9 stig og þannig hljóp spenna í leikinn aftur. Snæfellingar söxuðu enn frekar á forystu heimamanna og undir lok leiks komust þeir loks yfir 77-79. Elvar Friðriksson skoraði svo síðustu 4 stig Njarðvíkinga og innsiglaði 83-81 sigur Njarðvíkinga. Með sigrinum tryggðu Njarðvíkingar sér fjórða sætið en bæði Haukar og Þór töpuðu sínum leikjum.
Tracy Smith skoraði 26 stig og tók 11 fráköst hjá Njarðvík og Logi Gunnarsson var með 21 stig. Elvar Friðriksson skoraði svo 19 stig.
Njarðvík: Tracy Smith Jr. 26/11 fráköst, Logi Gunnarsson 21/7 fráköst/6 stoðsendingar, Elvar Már Friðriksson 19/4 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Ólafur Helgi Jónsson 12/7 fráköst/3 varin skot, Hjörtur Hrafn Einarsson 4/6 fráköst, Ágúst Orrason 1, Brynjar Þór Guðnason 0, Maciej Stanislav Baginski 0, Ragnar Helgi Friðriksson 0, Magnús Már Traustason 0.