Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 31. október 2003 kl. 21:40

Sigur hjá Keflavík og Grindavík

Keflavík og Grindavík unnu bæði leiki sína í Intersport-deildinni í kvöld.

Keflavík sigraði Snæfell 79-70 á heimavelli sínum í leik þar sem ekkert var gefið eftir og barist var allt þar til yfir lauk. Keflvíkingar spiluðu ekki vel í byrjun leiks og voru undir í hálfleik en komu firnasterkir inn í þriðja leikhluta og náðu góðri forystu sem þeir héldu til leiksloka þrátt fyrir harða atlögu gestanna. Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, var ánægður með sigurinn og leik sinna manna í seinni hálfleik. Eftir að vörnin lagaðist og hans menn urðu skynsamari í sókninni spiluðu þeir eins og búist er við af eins sterku liði og Keflavík.
Derrick Allen var stigahæstur Keflvíkinga með 18 stig en  Nick Bradford og Falur voru báðir með 17 stig. Bradford tók auk þess 14 fráköst.
Sigurður Þorvaldsson skoraði 18 stig fyrir Snæfell og var drjúgur í sóknarfráköstunum. Hlynur Bæringsson skoraði 12 stig og tók 14 fráköst.
Athygli vakti að þrátt fyrir að Keflavík væri á heimavelli heyrðist bara í stuðningsmönnum Snæfells sem hvöttu sína menn dyggilega. „Við erum bara orðnir vanir þessu.“ sagði Guðjón eftir leikinn. „Stuðningsmenn Keflavíkur verða líka að styðja liðið þegar illa gengur en ekki hætta ef á móti blæs.“

Grindavík vann öruggan sigur á heimavelli gegn Haukum 85-67. Grindavík hafði mikla yfirburði í leiknum og var staðan 26-9 eftir fyrsta leikhluta en í hálfleik leiddu þeir með 25 stigum. Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindavíkur, var mjög ánægður með sigurinn og sagði að vörnin sem þeir spiluðu hefði verið frábær og tryggði að Haukamenn komust ekkert áleiðis í leiknum. „Þegar vörnin er eins góð og hún var í kvöld fá menn mikið af góðum sóknartækifærum og við nýttum þau“.
Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur Grindavíkur með 22 stig en gat ekki spilað mikið í seinni hálfleik vegna villuvandræða og fór að lokum af velli með fimm villur. Þorleifur Ólafsson kom næstur honum með 16 stig.
Í liði Hauka var Michael Manciel yfirburðamaður og skoraði hann 34 stig og tók 17 fráköst.

Grindavík heldur áfram sigurgöngunni og er eina liðið sem hefur unnið alla sína leiki og er með tíu stig eftir fimm umferðir. Þar á eftir koma hvorki fleiri né færri en sex lið með sex stig hvort og þykir ljóst að deildin í vetur á eftir að vera ótrúlega spennandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024