Siglingakeppni með stuðningi Sparisjóðanna
Ljósanótt, siglingakeppni frá Reykjavík til Keflavíkur var skipulögð af Kjölbátasambandi Íslands og Siglingafélagi Reykjavíkur Brokey í samstarfi við SPRON og Sparisjóðinn í Keflavík, en keppt var um SPARISJÓÐSBIKARINN. Keppnin fór fram 1. september, en daginn eftir var efnt til skemmtisiglingar eða einskonar hvalaskoðunarkeppni út í Garðskaga.
45 manns tóku þátt í keppninni á 10 skútumum, sem var skipt upp í tvo hópa, eftir stærð og forgjöf. Fyrri hópurinn var ræstur út kl. 16:00 og sá síðari (hraðskreiðari) kl. 17:00 og komu flestar skúturnar í mark um kl. 21:00 á föstudagskvöld. Við komuna til Keflavíkur buðu sparisjóðirnir siglingafólkinu upp á glæsilegar veitingar í Duus húsi og gáfu verðlaun, óvenju fallega og veglega gripi. Siglingafólkið tók síðan þátt í kvöldvöku í Duus höfn um kvöldið. Áhöfnin á skútunni Ísold varð hlutskörpust í siglingakeppninni og tók Aron Árnason, skipstjóri Ísoldar, við Sparisjóðsbikarnum. Um er að ræða farandbikar sem nú var veittur í fyrsta sinn.
Á laugardeginum 2. september var efnt til hvalaskoðunarkeppni í tengslum við dagskrá Ljósanætur í Reykjanesbæ. Siglt var út að gps -punkti út við Garðskaga, þar sem vænlegt þykir að sjá hvali. Fátt var um stórhveli, þó sáust tveir í fjarlægð, en urmull hnýsu eða hnýðinga lék sér allt í kringum bátana. Óvenjulegt og skemmtilegt var að sigurvegarinn var dreginn úr potti þáttakenda. Verðlaunin voru flugmiðar til útlanda og var það áhöfnin á skútunni Dögun sem var sú heppna í þetta sinn.
Siglingafólk var sérstaklega ánægt með skipulag keppninnar til Keflavíkur, rausnarskap sparisjóðanna og móttökurnar í Duus- höfn. Menn höfðu á orði, að þá hlakkaði til næstu Ljósanætur.
Mynd: Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri SpKef, afhendir Sparisjóðsbikarinn.