Siggi Ingimundar þjálfar karlalið Keflavíkur
Í gær gekk körfuknattleiksdeild Keflavíkur frá samningum við Sigurð Ingimundarson að hann tæki að sér þjálfun karlaliðs Keflavíkur fyrir næstu leiktíð. Sigurður snýr því aftur eftir árs fjarveru, en hann er einnig þjálfari karlalandsliðsins og þjálfaði kvennalið Keflavíkur á sínum tíma.
Í samtali við Víkurfréttir sagðist Sigurður vera spenntur fyrir að byrja á ný. „Það verða ekki miklar breytingar frá síðasta ári en að sjálfsögðu kem ég með mitt starf inn í þetta og held áfram þar sem ég skildi við síðast.“
Í tilkynningu frá stjórninni er Fali Harðarsyni og Guðjóni Skúlasyni þakkað fyrir gott starf á síðustu leiktíð og kemur fram í tilkynningunni að Keflvíkingar hyggist verja titla sína á næstu leiktíð og taka þátt í Evrópukeppnum bæði í karla- og kvennaflokki.