Síðasti leikurinn á gamla grasinu á morgun - grasið frá 1966
Það verða ákveðin tímamót á morgun á Sparisjóðsvellinum í Keflavík. Þá verður leikinn síðasti leikurinn á grasvellinum sem var lagður torfi sumarið 1966. Vígsluleikur var síðan spilaður á vellinum þann 2. júlí 1967. Nú í haust verður ráðist í mikla endurnýjun á knattspyrnuvellinum í Keflavík þar sem skipt verður um undirlag vallarins, sett hita- og vökvunarkerfi og síðan tyrft með nýju grasi. Nýi völlurinn verður einnig stærri en sá gamli, þ.e. svæðið sem nú fer undir hlaupabrautir verður tyrft og þannig hægt að færa til álagspunkta á vellinum. Gert er ráð fyrir því að nýi völlurinn verði orðinn leikhæfur fljótlega í júní á næsta ári.
Síðasti leikurinn á núverandi grasi verður á morgun gegn ÍBV en leikurinn er í 22. og síðustu umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn hefst kl. 16:00. Fyrr í sumar mættust þessi lið í 11. umferð deildarinnar og gerðu þá 2-2 jafntefli úti í Eyjum. Haukur Ingi Guðnason skoraði bæði mörk Keflavíkur en Eiður Aron Sigurbjörnsson og Andri Ólafsson gerðu mörk heimamanna í þeim leik.
Grasið sem nú er á Keflavíkurvellinum verður "endurunnið" en það verður notað á æfingasvæði Keflavíkur sem verið er að útbúa ofan Reykjaneshallarinnar. Sérfræðingar segja grasið mjög gott. Vandamálið hefur hins vegar verið í vætutíð og vori og hausti þegar völlurinn hefur ekki náð að losa sig við vatn og verður þá að drullusvaði á leikdögum. Í dag er t.a.m. miðja vallarins mjög blaut eftir rigningar síðustu daga og hætt við að völlurinn geti látið á sjá eftir leik morgundagsins.
Ljósmynd af torfi á Keflavíkurvellinum sumarið 1966. Völlurinn var síðan vígður 2. júlí 1967. Ljósmyndina tók Heimir Stígsson en hún er úr safni Hafsteins Guðmundssonar.