Síðasta tímabil Sigga Ragga með Keflavík
Knattspyrnudeild Keflavíkur og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari meistaraflokks karla, hafa gefið frá sér sameiginlega tilkynningu þess efnis að Sigurður hætti með liðið að loknu yfirstandandi tímabili.
Knattspyrnudeildin tilkynnti þetta í dag á Facebook-síðu sinni. Þar segir: „Knattspyrnudeild Keflavíkur og Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari meistaraflokks karla í Bestu deildinni hafa ákveðið að ljúka samstarfi sínu að loknu þessu keppnistímabili í október næstkomandi.
Keppnistímabilið í ár er fjórða keppnistímabil Sigurðar hjá félaginu og á hans fyrsta ári vann Keflavík Lengjudeildina og hefur síðan þá leikið í Bestu deildinni. Í fyrra endaði liðið í sjöunda sæti sem er besti árangur Keflavíkur síðastliðin tólf ár. Það er enn óljóst í hvaða sæti liðið lendir nú í ár en baráttan í Bestu deildinni er hörð og ennþá í gangi. Báðir aðilar hafa hins vegar komist að samkomulagi um að best sé að leiðir skilji að loknu móti í október, ákvörðunin er tekin með vinsemd og virðingu beggja aðila fyrir hvorum öðrum.“
Keflavík er í tólfta og neðsta sæti Bestu deildar karla efttir sautján umferðir, sex stigum á eftir Fylki sem er í tíunda sæti en eini sigur Keflavíkur á tímabilinu, enn sem komið er, kom gegn Fylki í fyrstu umferð.