Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sex sigurleikir í röð
Mánudagur 14. nóvember 2005 kl. 12:26

Sex sigurleikir í röð

Njarðvíkingar sigruðu ÍR í gærkvöldi, 70-81, í Seljaskóla og hafa nú unnið sex leiki í röð í Iceland Express deildinni.

Njarðvíkingar hófu leikinn af krafti og sjö stig í röð frá Brenton Birmingham komu Njarðvíkingum í 4-11. ÍR-ingar voru þó ekki af baki dottnir og náðu að minnka muninn fyrir lok fyrsta leikhluta, 14-19.

Í öðrum leikhluta náðu Njarðvíkingar að auka muninn í 14 stig en góður lokasprettur hjá ÍR varð til þess að liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 32-39. Í liði ÍR voru þeir Eiríkur Önundarson og Fannar Helgason með 3 villur þegar flautað var til hálfleiks.

Smávægilegt kæruleysi gerði vart við sig á upphafsmínútum seinni hálfleiks hjá Njarðvíkingum og náðu ÍR-ingar að minnka muninn í 46-48 þegar 3:30 mínútur voru til loka þriðja leikhluta. Þá vöknuðu Njarðvíkingar af værum blundi og ekki síst fyrir sterka innkomu hjá Halldóri Karlssyni sem tókst að vekja baráttuneista í Njarðvíkingum. Njarðvíkingar kláruðu þriðja leikhluta vel og að honum loknum var staðan 51-61 Njarðvíkingum í vil.

Eiríkur Önundarson opnaði fjórða leikhluta með því að ná sóknarfrákasti eftir sitt eigið skot, skoraði eftir frákastið og fékk villu að auki. Eiríkur setti niður vítaskotið og staðan því 54-61. Friðrik Stefánsson svaraði með körfu í næstu sókn fyrir Njarðvíkinga, 54-63. ÍR-ingar reyndu 1-3-1 svæðisvörn á Njarðvíkinga sem gaf ágætlega en Halldór Karlsson setti þá niður þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 58-68 þegar 6:30 mínútur voru til leiksloka. Þriggja stiga karfan frá Halldóri kom ósigruðum Njarðvíkingum á sporið og þeir kláruðu leikinn með 11 stiga sigri, 70-81.

Jeb Ivey var stigahæstur í Njarðvíkurliðinu með 20 stig og 7 stoðsendingar. Honum næstur var Brenton Birmingham með 16 stig. Halldór Karlsson átti góðan leik í gær með kraftmiklum innkomum, hann gerði 11 stig og gaf 2 stoðsendingar.

Í liði ÍR var Ales Zivanovic með 15 stig og Eiríkur Önundarson með 13.

Tölfræði leiksins

Staðan í deildinni

VF-myndir/Jón Björn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024