Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sex mörk frá Nínu
Miðvikudagur 5. júlí 2006 kl. 10:13

Sex mörk frá Nínu

Reykjarmökk lagði frá takkaskóm Nínu Óskar Kristinsdóttur í gær þegar Keflavíkurkonur gjörsigruðu Fylki 10-0 í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu. Nína gerði sex mörk í leiknum og hefur Keflavíkurliðið nú 12 stig í 5. sæti deildarinnar.

 

Björg Ásta Þórðardóttir var í byrjunarliði Keflavíkur í gær og lék í 30. mínútur í leiknum áður en henni var skipt út af. Keflvíkingar eru hægt og bítandi að koma Björgu inn í leik liðsins en hún hefur átt við alvarleg meiðsli að stríða að undanförnu og ætlar sér að engu óðslega.

 

Fyrsta mark leiksins kom á 4. mínútu þegar Nína Ósk fékk stungusendingu inn fyrir Fylkisvörnina og skaut yfir markvörð Fylkis. Keflavík 1-0 Fylkir. Skömmu síðar var Nína aftur á ferðinni og gerði sitt annað mark þegar Vesna Smiljkovic skaut að marki en Nína náði frákastinu, lék á markvörðinn og lagði boltann í netið. Keflavík 2-0 Fylkir.

 

2-0 eftir 12 mínútna leik og eftir það var leikurinn algjörlega eign Keflavíkurkvenna sem bættu við átta mörkum og lokatölur því 10-0.

 

Eins og fyrr greinir þá gerði Nína Ósk 6 mörk en Karen Penglase gerði tvö mörk, Vesna Smilkovic eitt mark og Danka Podovac gerði eitt mark. Fylkiskonur náðu aldrei að byggja upp almennilegar sóknir gegn Keflavík og voru í áhorfendasætinu allan leikinn.

 

Þegar átta umferðum er lokið eru Keflavíkurkonur í 5. sæti deildarinnar með 12 stig, þremur stigum á eftir KR og Stjörnunni sem eru í 3. og 4. sæti með 15 stig.

 

Næsti leikur Keflavíkurkvenna í Landsbankadeildinni er þann 11. júlí gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks á Kópavogsvelli.

 

Staðan í deildinni

 

VF-myndir/ [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024