SEINT Í RASSINN GRIPIÐ
Keflvíkingar voru heppnir að ná stigi á heimavelli gegn botnliði Valsmanna sl. laugardag. Þeir misstu 2-1 forskot niður í 2-4 skotgröf áður en Kristjáni Brooks og Marco Tanasic tókst að bjarga stigi með sínu markinu hvor á lokakaflanum. Valsmenn voru óheppnir að skora ekki í upphafi fyrri hálfleiks og það var nokkuð gegn gangi leiksins þegar Keflvíkingar komust yfir með skallamarki Karls Finnbogasonar. Valsmenn létu það ekki á sig fá og jöfnuðu eftir mikið fum og faut í vítateig heimamanna. Kristján Brooks kom síðan Keflvíkingum aftur yfir fyrir hálfleik með glæsilegum skalla eftir eitraða sendingu Ragnars Steinarssonar inn á teiginn. Þegar skammt var liðið á seinni hálfleik gaf Bjarki Guðmundsson markvörður Valsmönnum vítaspyrnu með einu af sínu „straujum´ann“ úthlaupum gegn öldungnum Arnóri sem var á leið frá markinu. Arnór vaknaði við þetta af dvalanum og skoraði strax aftur með góðu vinstri fótar skoti og kórónaði síðan skömm Keflavíkurvarnarinnar með því að stinga unglinginn Hjört Fjeldsted af á sprettinum og skila boltanum örugglega framhjá Bjarka í markinu. Kristján Brooks og Ragnar Steinarsson léku vel fyrir heimamenn en þar með er hrósið uppurið. Eysteinn Hauksson var arfaslakur (haugarfaslakur), markvörðurinn Bjarki mætti fletta upp orðinu „tækni“ í orðabók og það virðist hreinlega vanta sprettgírinn í „bjargvættinn“ Þórarinn. FYRSTA DEILDARMARK KARLS FINNBOGAÞegar Karl Finnbogason, bakvörður Keflvíkinga, skoraði mark á 20 mín. gegn Valsmönnum eyðilagði hann einfaldan útreikning á mörkum Karls per leik. Þetta var nefnilega fyrsta mark hans í 92 leikjum í efstu deild. Til að aðstoða áhangendur liðsins þá upplýsir VF hér með að markahlutfall Karls breyttist úr 0,00 mörk á leik í 0,0109 mörk á leik.