Seiglusigur hjá Keflvíkurstúlkum - 2:0

- Geta tryggt sér titilinn á sunnudagskvöldið

„Við höldum áfram að hugsa bara um einn leik í einu og nei, ég er ekki búinn að panta neitt kampavín,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflvíkinga eftir sigur á Snæfelli annan leikinn í röð í úrslitum Domino’s deildar kvenna í körfubolta í TM höllinni í kvöld. Keflavík vann með 5 stiga mun, 67-61.

Leikurinn byrjaði með látum og fyrsti fjórðungur var mjög skemmtilegur og bæði liðin léku flottan körfubolta. Keflavík leiddi með fjórum stigum 24-20. Annar fjórðungur var hnífjafn og staðan í leikhlé 40-36 fyrir heimaliðið.

Spennan hélt áfram í þriðja leikhluta en að honum loknum var staðan 53-47. Varnarleikurinn var í hávegum hjá báðum liðum og leikmönnum gekk erfiðlega að skora. Lokafjórðungurinn var æsispennandi og þegar tvær og hálf mínúta var eftir munaði aðeins þremur stigum 61-58. Næstu sóknir fóru forgörðum hjá báðum liðum en Emelía Ósk Gunnarsdóttir skoraði fjögur af síðustu sex stigum Keflavíkur og bítlabæjarliðið tryggði sér magnaðan sigur og leiðir nú í einvíginu 2-0. Keflvík getur því tryggt sér titilinn í Stykkishólmi á sunnudagskvöldið.

Ariana Moorer skoraði tuttugu stig hjá Keflavík og var með 15 fráköst, gríðarlega öflug og stjórnar leik liðsins eins og herforingi. Eins og í fyrsta leiknum var þó betri liðsheild hjá Keflavík sem tryggði liðinu sigur en einnig mjög góður varnarleikur. Hittnin var þó langt frá því að vera góð, Keflavík skoraði aðeins einn þrist úr 13 tilraunum. Hjá Snæfelli skoraði Ellenberg „aðeins“ 20 stig sem er rúmlega helmingi minna en í fyrsta leiknum. Hins vegar komu fleiri leikmenn Snæfells betur inn í stigaskorið en þá. Ekki ólíklegt að það hafi verið lagt upp með það hjá þjálfara liðsins. Langbesti maður liðsins var fyrrverandi Keflavíkurdaman Bryndís Guðmundsdóttir sem skoraði 22 stig.

Keflavík: Ariana Moorer 20/15 fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir 11/3 varin skot, Þóranna Kika Hodge-Carr 10, Birna Valgerður Benónýsdóttir 8, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 8/4 fráköst, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 6/8 fráköst/5 stoðsendingar, Irena Sól Jónsdóttir 4, Kamilla Sól Viktorsdóttir 0, Elsa Albertsdóttir 0, Erna Hákonardóttir 0, Katla Rún Garðarsdóttir 0, Svanhvít Ósk Snorradóttir 0.

Thelma Dís undir körfunni.

Þóranna átti mjög góðan leik. Hér sækir hún að körfunni.

Birna Valgerður er hér í harðri baráttu inni í teig.

Þjálfarar Keflavíkur taka dansinn, fagna sigri.

Stuðningsmenn Keflavíkur voru frábærir í leiknum.