Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Seiglan skilaði Keflavík stigi
Celine Rumph átti góðan leik í vörn Keflavíkur í kvöld. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 11. maí 2021 kl. 22:39

Seiglan skilaði Keflavík stigi

Keflavík gerði jafntefli við Stjörnuna í markalaustum leik í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Leikið var á Samsungvellinum í Garðabæ.

Það var allt annar bragur á leik kvennaliðs Keflavíkur í kvöld og leik þeirra gegn Selfossi í fyrstu umferð Pepsi Max-deildarinnar. Í leiknum gegn Selfossi náðu stelpurnar sér ekki í gang en í kvöld var ekkert gefið eftir og það var varnarleikur Keflavíkur sem landaði þessu stigi.

Stjarnan sótti nokkuð stíft í leiknum en agaður og vel skipulagður varnarleikur Keflvíkinga vann vel gegn sókn Stjörnunnar. Tiffany Sornpao, markvörður Keflavíkur, var besti maður vallarins með allar staðsetningar á hreinu, gersamlega átti teiginn og sýndi góða markvörslu þegar á reyndi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stjarnan fékk sín færi í leiknum og Tiffany varði mjög vel í fyrri hálfleik þegar sóknarmaður Stjörnunnar komst einn á móti henni. Keflvíkingar áttu einnig sína spretti þótt þeir væru færri, Dröfn Guðmundsdóttir er hröð þegar hún tekur sprettinn upp kantinn og það er erfitt að eiga við hana en ýmist voru fyrirgjafirnar ekki að rata rétta leið eða Keflvíkingar fámennir í teignum.

Þegar um fimm mínútur voru til leiksloka og Keflavíkurliðið búið að halda sóknarþunga Stjörnukvenna í skefjum gerði Abby Carchio sig seka um algert dómgreindarleysi þegar hún braut á leikmanni Stjörnunnar og fékk að líta gult spjald. Hún brást við með þeim hætti að klappa fyrir dómaranum og var umsvifalaust sýnt rauða spjaldið. Það hefði getar reynst dýrkeypt að láta reka sig út af en vörn Keflvíkinga hélt út leikinn – en það hefði án efa verið súrt fyrir liðið að fá á sig mark, einni færri, í blálokin eftir að liðsheildin hafði sýnt mikla elju og baráttu í leiknum.

Keflavík búið að tryggja sér markheppinn miðjumann

Í frétt á knattspyrnumiðlinum Fótbolti.net í kvöld kemur fram að knattspyrnudeild Keflavíkur sé búið a tryggja sér bandaríska miðjumanninn Aerial Chavarin sem kemur frá Chicago Red Stars.

Keflavík á eftir að staðfesta félagaskiptin en þau eru komin í gegn á vefsíðu KSÍ.