Segir Myllubakkaskóla geta sigrað Skólahreysti
Helena Rós Gunnarsdóttir spennt fyrir úrslitunum í kvöld
Enn kynnum við til leiks keppendur fræa Reykjanesbæ sem munu etja kappi í Skólahreysti í kvöl. Þá fer fram úrslitakeppnin í Laugardalshöll en bein útsending verður frá keppninni í Ríkissjónvarpinu. Hin 15 ára Helena Rós Gunnarsdóttir keppir fyrir hönd Myllubakkaskóla í hraðaþrautinni. Hún stundar engar íþróttir en hún fer reglulega í ræktina.
„Lokakeppnin leggst ágætlega í mig, pínu stressuð en samt spennt,“ sagði Helena í samtali við VF. Hún hefur undirbúið sig með því að fara út að hlaupa og gert styrktaræfingar. Hún vonast til þess að bæta sig í lokakeppninni en hún tók einnig þátt í fyrra. „Ég hef fylgst með þessu lengi og alltaf langað til að keppa,“ við spurðum Helenu nokkurra spurninga en hún telur að sjálfsögðu að Myllubakkaskóli sigri keppnina sem hefst klukkan 20:00 í kvöld.
Hver er eftirlætis íþróttamaðurinn þinn?
Uppáhalds íþróttamaðurinn minn er Shawn Johnson.
Hvaða tónlist kemur þér í gírinn?
Eminem og Valdimar peppa mig upp.
Hvað færðu þér að borða fyrir Skólahreysti?
Hafragrautur og banani klikka ekki.
Áhugamál?
Líkamsrækt.
Hvernig tilfinning er það að vera í beinni útsendingu í Sjónvarpinu?
Það fylgir því meira stress að vera í beinni útsendingu, fleiri að horfa.