Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Scott Ramsey hetja Grindvíkinga
Þriðjudagur 22. júlí 2008 kl. 00:41

Scott Ramsey hetja Grindvíkinga

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindvíkingar fögnuðu í kvöld fyrsta heimasigri sumarsins í Landsbankadeild karla þegar þeir lögðu KR að velli, 2-1. Þetta er raunar fyrsti heimasigur liðsins í efstu deild í tæp tvö ár, eða síðan þeir sigruðu Breiðablik í ágúst 2006.
 
Vesturbæingar byrjuðu leikinn mun betur en heimamenn og stjórnuðu leiknum lengst af. Nýr leikmaður Grinvíkinga, Gabonbúinn Gilles Ondo, fékk loks að leika með liðinu og var beittastur í sínu liði í upphafi leiks.
 
Gunnar Örn Jónsson skoraði fyrsta mark leiksins á 31. mínútu þegar hann skallaði knöttinn inn af markteigslínu eftir góða fyrirgjöf Guðmundar Reynis Gunnarssonar.
 
Gunnar var svo aftur á ferðinni á 43. mínútu, en þá hinum megin á vellinum, þar sem hann þrumaði knettinum í eigið mark eftir fyrirgjöf frá Andra Steini Birgissyni, óverjandi fyrir Stefán Loga Magnússon í KR-markinu. Rétt fyrir það hafði KR legið þungt á Grindvíkingum og lá mark þeirra í loftinu.
 
Þannig stóðu leikar í hálfleik, en skoski töframaðurinn Scott Ramsey kúventi leiknum einn og óstuddur í upphafi seinni hálfleiks. Á 50. mínútu fengu Grindvíkingar aukaspyrnu á um 30m færi sem Ramsey skaut úr og setti framhjá Stefáni Loga. Knötturinn hafði mögulega viðkomu í varnarveggnum en skotið
var glæsilegt og hnitmiðað.
 
Þetta mark gjörbreytti leiknum og koðnaði leikur gestanna niður í framhaldinu líkt og söngur Miðjunnar, stuðningsmanna KR.
 
Ramsey fékk annað færi skömmu síðar þegar Ondo stakk boltanum niður á hann hægra megin í teignum, en skot hans var misheppnað og Stefán Logi varði auðveldlega.
 
Eftir það sóttu KR-ingar en Grindvíkingar vörðust fimlega og beittu skyndisóknum án þess þó að hvorugt liðið næði að skapa sér fleiri afgerandi færi.
 
Milan Stefán Jankovic, þjálfari Grindvíkinga, var að sjálfsögðu í gleðivímu í leikslok þegar Víkurfréttir náðu tali af honum.
 
„Þetta var frábært! Við vorum kannski ekki að spila fallegasta fótboltann en baráttan var til staðar og það var það sem dugði í dag.“
 
Hann gat ekki neitað því að heppni hafði nokkuð að gera með sigurinn. „Já, við vorum sérstaklega heppnir í fyrri hálfleik og þeir voru miklu betri en við þá, en það var kannski kominn tími á smá heppni hjá okkur í sumar. Það er alltaf gott að vinna stórlið eins og KR og það gefur okkur vonandi sjálfstraust til að vinna fleiri leiki.“
 
KR-ingar geta kvittað fyrir þetta tap því liðin mætast að nýju á fimmtudag, þá í VISA-bikarnum í Frostaskjóli. Næsti deildarleikur Grindvíkinga verður á sunnudaginn þegar Íslandsmeistarar Vals koma í heimsókn.
 
Grindavík hefur með þessum sigri styrkt stöðu sína í deildinni þar sem þeir eru nú í 8. sæti, tíu stigum frá fallsæti og mun nær liðunum sem eru að berjast um og yfir miðja deild.
 
 
VF-mynd/Þorgils – Fleiri myndir má finna á Ljósmyndavef Víkurfrétta.