Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sara Sigmunds: Hrundi gjörsamlega árið 2015
Föstudagur 24. febrúar 2017 kl. 09:14

Sara Sigmunds: Hrundi gjörsamlega árið 2015

„Erfiðasti tími lífs míns“ segir crossfit-stjarnan

„Það sem ég hef klikkað á síðustu tvö árin er að að toppa á röngum tíma. Ég lagt áherslu á að vinna allt sem ég tek þátt í. Ég er því að fara með því hugarfari að komast á heimsleikana og toppa mig þar,“ segir crossfitkonan Sara Sigmundsdóttir í samtali við Víkurfréttir.

Sara hefur verið í kjörstöðu til þess að klára heimsleikana í crossfit en allt fór úrskeiðis á síðasta degi árið 2015. „Það klikkaði bara eitthvað í hausnum. Ég eyddi allri orkunni minni í að klifra upp þennan vegg. Ég fæ gat á hausinn á meðan og verð mjög pirruð. Ég vissi svo að næsta æfing væri mín, handstöðulyftur, ég klikka svo á fyrstu þremur og þá gafst ég bara upp. Allt í einu hættir þú bara að trúa því að þú getir þetta. Ég fór að brjóta mig niður á meðan ég var að gera æfinguna. Ég man að ég var að hugsa á meðan, „af hverju ættir þú að vinna fyrstu heimsleikana sem þú keppir á? Þetta var alltof stór draumur. Þetta skiptir ekki máli lengur, þú ert búin að tapa þessu.“ Þetta var ég að hugsa og hef þurft að vinna mikið í þessu,“ segir Sara sem meðal annars hefur leitað sér aðstoðar íþróttasálfræðings. „Ég er búin að gera alls konar andlegar æfingar, sem er mjög erfitt. Það er ekkert mál að æfa en að æfa andlegu hliða en svo miklu erfiðara. Andlega hliðin stjórnar líkamlega hlutanum þannig að hún er líklega 80% af íþróttinni.“ Því skilur oft á milli þeirra bestu, hver er sterkastur í höfðinu. „Það er þannig. Það verður ekki vandamál núna í ár.“ Sara er í leit að nýjum þjálfara og leggur hún áherslu á að sá leggi alla áherslu á andlegu hliðina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Erfiðasti tími lífs míns“

Undirbúningur getur þannig verið strembinn fyrir stór mót og tekið á taugarnar. „Ég fann það vikurnar fyrir síðustu heimsleika að ég var bara dauf. Mig langaði eiginlega ekki að tala við neinn, missti matarlyst og var ógeðslega stressuð. Eftir 2015 viðurkenndi ég ekki hversu mikil áhrif þetta hafði á mig andlega. Ég fann það svo bara árið 2016 hvað það hafði ennþá mikil áhrif á mig að hafa klúðrað þessu. Ég fór því að hugsa bara um það þegar ég var að fara að keppa, í stað þess að einbeita mér að því sem ég var að gera núna var ég að hugsa til baka. Það var eiginlega erfiðasti tími í lífi mínu þessir tveir dagar fyrir mót. Tíminn var bara stopp, endalaus bið bara.“

Þegar keppendur eru ekki brosandi í myndavélar eða að framkvæma æfingar sem eru nánast mannlega ómögulegar, þá er bara hver í sínu horni að reyna að halda einbeitingu að sögn Söru. Hún hlustar þá á tónlist og reynir að hugsa bara ekki um neitt. Hún reyndi að fara bara í nudd og slaka á en það tókst ekki alveg. „Ég fór að skoða stigatöfluna og hugsa um þau mistök sem ég hafði gert. Ég er hins vegar búin að læra mikið af þessu og í ár mun ég hugsa um eina grein í einu í stað þess að hugsa um keppnina. Ég mun taka fimm mínútur til þess að rakka mig niður eftir grein og svo er það bara áfram gakk.“

Sara stefnir ótrauð á heimsleikana í sumar en hún hefur nú flutt búferlum til Kaliforníu þar sem hún mun æfa og keppa næsta árið.