Sara og Katrín Tanja mætast í einvígi
Sara hársbreidd frá því að vinna The Open
Njarðvíkingurinn Sara Sigmundsdóttir er aðeins einu stigi frá því að vinna The crossfit games Open þetta árið. Hún hefur verið í fyrsta sæti í öllum fjórum greinunum til þessa og er í öðru sæti á heimsvísu. Annað kvöld munu hún svo há einvígi við Katrínu Tönju heimsmeistara, en í svipuðu einvígi í fyrra fór Sara með sigur af hólmi. Þannig fer lokaæfingin fram hjá Söru í þessu einvígi. Hún á mikla möguleika á að sigra en í fyrra hafnaði hún í fjórða sæti á heimsvísu.
Hún er örugg áfram í regionals en þar þarf hún að enda í einu af fimm efstu sætunum til þess að komast á stærsta sviðið, sjálfa heimsleikana.
Við fengum Andra Þór Guðjónsson þjálfara hjá Crossfit Suðurnes til þess að útskýra fyrir okkur leiðina á heimsleikana.
Hvað er The Crossfit Games Open? „Þetta er keppni haldin af eigendum crossfit. Hún er haldin í tvennum tilgangi. Í fyrsta lagi er þetta leiðin að því að komast á Heimsleikana í crossfit. Röðin er því The Open > Regionals > The CrossFit Games. Keppendur á Íslandi munu keppa innan Evrópu um að komast inn á Meridian Regionals sem haldnir eru í Madrid. Þeir 30 efstu karlar, konur og lið í Evrópu og 10 efstu í Afríku munu koma saman og keppa á Meridian Regionals og þaðan munu 5 efstu í karla-, kvenna- og liðaflokki vinna sér inn þátttökurétt á The CrossFit Games (Heimsleikunum) sem haldnir eru 1.-6. ágúst í Madison, Wisconsin í Bandaríkjunum. Þessi Regionals eru haldin víðsvegar um heiminn eða 8 Regionals samtals.“
Hvernig fer keppnin fram?
„Yfir fimm vikna tímabil er alltaf gefin út ein æfing á aðfaranótt föstudags sem keppendur þurfa að framkvæma og skila þarf inn skorinu sínu á mánudegi inn á heimasíðu Crossfit. Þannig verður einvígi Söru og Katrínar. Þær fá að vita hvaða æfingar þær eiga að taka og fá svo um tíu mínútur til þess að undirbúa sig og fara svo beint í keppni sem sýnd verður beint frá.“
Andri segir að þetta einvígi sé meira svona sýning heldur en keppni þeirra á milli en þær hafa átt í harðri baráttu undanfarin ár. Crossfitarar á Suðurnesjum ætla að hittast á Paddy’s á fimmtudagskvöld og horfa á keppnina hjá Söru. Hér að neðan má sjá brot í keppni þeirra Söru og Katrínar frá því í fyrra.