Sanngjarnt jafntefli á Njarðvíkurvelli
Njarðvíkingar nældu sér í eitt stig á heimavelli í dag er þeir tóku á móti Stjörnunni í fyrstu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Leiknum lauk með markalausu jafntefli en hurð skall ansi oft nærri hælum á lokasprettinum og voru grænir nokkuð heppnir að fá ekki á sig mark og geta því sáttir unað við stigið.
Heimamenn voru ívið betri í upphafi leiks en Stjörnumenn áttu nokkur fín færi sem Ingvar Jónsson át upp í Njarðvíkurmarkinu. Aron Smárason átti fínt langskot á Stjörnumarkið á 33. mínútu fyrri hálfleiks en skotið var varið í hornspyrnu sem Njarðvíkingar nýttu illa eins og reyndar flest önnur föst leikatrið í dag.
Liðin gengu því til hálfleiks í stöðunni 0-0 en strax í upphafi síðari hálfleiks vildu Stjörnumenn fá víti en þeim varð ekki að ósk sinni. Síðari hálfleikur var nokkuð rólegri en sá fyrri og færri marktækifæri litu dagsins ljós.
Bæði lið fóru frekar illa með fín færi en þegar líða tók á síðari hálfleik áttu Stjörnumenn nokkur fín færi og á 90. mínútu hefðu þeir getað stolið sigrinum með fínu skoti rétt yfir markið.
Jafnteflið var sanngjarnt á Njarðvíkurvelli í dag og mátti lítinn mun á liðunum sjá en fyrir deilarkeppnina var Njarðvíkingum spáð falli og Stjörnunni á meðal efstu liða.
Næsti leikur Njarðvíkinga er sunnudaginn 18. maí þegar þeir mæta Víkingum frá Ólafsvík á Ólafsvíkurvelli kl. 16:00.
VF-Mynd/ [email protected] – Ísak Örn fékk nokkur ágæt færi í Njarðvíkurliðinu í dag en boltinn vildi ekki í netið.