Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sanngjarn sigur Keflvíkinga á Stjörnunni
Rúnar Þór Sigurgeirsson átti stjörnuleik í kvöld og var sáttur með úrslitin. VF-mynd: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 9. maí 2021 kl. 21:30

Sanngjarn sigur Keflvíkinga á Stjörnunni

Keflvíkingar fóru með 2:0 sigur á Stjörnunni í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld á HS Orkuvellinum.
Bið Keflvíkinga eftir sigri í efstu deild var orðin æði löng en sigurinn í kvöld var þeirra fyrsti síðan Keflavík vann Leikni þann 3. október 2015. Vindurinn setti svip sinn á leikinn sem einkenndist frekar af baráttu en fallegum fótbolta – og baráttan var meiri í Keflvíkingum.

Keflvíkingar léku undan vindi í fyrri hálfleik og strax á annarri mínútu átti Sindri Guðmundson skot í stöng Stjörnumanna sem sluppu með skrekkinn. Þeir voru svo aftur nálægt því að skora þegar markvörður Stjörnunnar missti boltann eftir horn, það var þéttur pakki í teignum en Keflvíkingar náðu skoti sem var varið.

Hvorugt lið náði upp neinu spili að ráði, Stjörnumenn héldu boltanum þó aðeins betur en Keflvíkingar áttu mun beittari sóknir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eftir rúmlega tuttugu mínútna leik sótti Keflavík hratt upp vinstri kantinn þar sem Stjörnumarkvörðurinn fór í skógarferð en náði að hreinsa út af undir pressu frá Rúnari Þór Sigurgeirssyni. Rúnar var fljótur að hugsa og tók innkastið strax á Kian Williams, áður en markvörðurinn náði að komast í teiginn. Upp úr því var brotið á Kian og vítaspyrna dæmd sem Frans Elvarsson skoraði úr. Frans þurfti reyndar að endurtaka spyrnuna þar sem vindurinn var búinn að færa boltann úr stað en það kom ekki að sök, 1:0 fyrir Keflavík.

Stjörnumarkvörðurinn í skógarferð undir pressu frá Rúnari Þór sem tók svo innkastið strax og upp úr því kom fyrra mark Keflvíkinga.

Áfram héldu Keflvíkingar að eiga beittari sóknir en gestirnir en náðu þó ekki að skapa sér verulega hættuleg færi eða skora fleiri mörk í hálfleiknum. Vindurinn hafði áhrif á fyrirgjafir og markvörður Stjörnunnar virkaði óöruggur og var oft í talsverðum vandræðum. Það vantaði svolítið að Keflvíkingar nýttu sér meðbyrinn og létu vaða á markið utan teigs.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri, menn áttu erfitt með að halda boltnum og byggja upp spil en eftir tæplega tíu mínútna leik í síðari hálfleik átti Ástbjörn Þórðarson gott hlaup upp hægri kantinn, kom góðri sendingu inn í teiginn sem rataði beint í lappirnar á Kian William sem afgreiddi hann í netið (54'). Staðan 2:0 fyrir heimamenn.

Leikurinn hélt áfram að vera barátta við vindinn og að reyna að hemja boltann. Menn börðust þeim mun meira og það var talsverð harka í leiknum, sjö gul spjöld litu dagsins ljós og Stjörnnumenn kveinkuðu sér svolítið undan Keflvíkingum sem uppskáru sanngjarnan sigur og eru komnir með þrjú stig í Pepsi Max-deildinni.

Þegar Keflavík nældi sér síðast í sigur í efstu deild voru aðeins tveir í liðinu sem leika með Keflavík í dag, markvörðurinn Sindri Kristinn Ólafsson og Frans Elvarsson. Leikurinn fór 3:2 og mörk Keflavíkur skoruðu þeir Hörður Sveinsson (tvö mörk) og Sigurbergur Elísson.

Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók meðfylgjandi myndir sem sjá má í myndasafni fyrir neðan fréttina.

Keflavík - Stjarnan (2:0) | Pepsi Max deild karla 9. maí 2021