Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 31. október 2003 kl. 19:15

Sankovic þjálfar Grindavík. Jankovic til Fylkis?

Sankovic þjálfar Grindavík

Knattspyrnudeild UMFG og Zeljko Sankovic hafa samið um að hann taki að sér þjálfun á meistaraflokki karla næstu fjögur tímabil. Sankovic, sem hefur að undanförnu þjálfað 2. flokk Víkings, hefur 20 ára reynslu á þessu sviði þar sem hann þjálfaði m.a. U-19 landslið fyrrum Júgóslavíu á sínu tíma. Innan raða þess voru menn sem síðar urðu stórstjörnur eins og Robert Prosinecki, Davor Suker og Robert Jarni, sem voru kjölfestan í liði Króatíu sem vann bronsverðlaun á HM 1998.
Í viðtali á Stöð 2 í kvöld gat Sankovic skiljanlega ekki sagt til um hvort breytingar á liðinu stæðu fyrir dyrum, þar sem hann væri ekki búinn að kynna sér liðið til hlýtar, en sagðist stefna á að vinna Íslandsmeistaratitilinn á næstu fjórum árum. Á heimasíðu Grindvíkinga lýsa þeir yfir ánægju sinni með ráðninguna og segjast bjartsýnir á það sem koma skal.

Jankovic til Fylkis?

Fjölmiðlar landsins tóku aldeilis við sér í vikunni eftir að ginfan.dk (sem er heimasíða stuðningsmanns Fylkis)skýrði frá því að fyrrverandi þjálfari Grindavíkur og núverandi þjálfari Keflavíkur, Milan Stefán Jankovic, hefði skrifað undir samning við Fylki um að þjálfa yngri flokka liðsins ásamt því að vera tæknilegur ráðgjafi meistaraflokks. Fréttin var uppspuni frá rótum og var ætlað að vera grín. Jankovic tók sjálfur þátt í sprellinu og lét mynda sig í Fylkisbúningi til að fullkomna blekkinguna. Vefir eins og gras.is og íþróttasíða mbl.is létu ginnast um stund en drógu fréttirnar svo til baka þegar farið var að grennslast nánar fyrir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024