Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Sandra Voitane kom inn á og skoraði
Sandra Voitane skoraði markið sem skildi liðin að skömmu eftir að henni var skipt inn. á. Myndir úr safni Víkurfrétta/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 13. júní 2023 kl. 09:54

Sandra Voitane kom inn á og skoraði

Keflvíkingar unnu góðan sigur á Þrótturum í Bestu deild kvenna í gær. Það urðu miklar sviptingar í seinni hálfleik sem Keflavík nýtti til hins ítrasta og tryggði sér mikilvæg þrjú stig í deildinni.

Leikurinn fór rólega af stað en Þróttur náði svo betri tökum leiknum eftir því sem á leið fyrri hálfleik. Keflavík varðist ágætlega og átti fínar rispur inn á milli. Rétt áður en blásið var til hálfleiks voru Þróttarar nærri því að komast yfir þegar sóknarmaður þeirra skallaði í þverslá Keflavíkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þróttarar héldu áfram að stjórna leiknum í seinni hálfleik en það dró fljótlega til tíðinda. Þá var Linli Tu við það að sleppa í gegnum vörn Þróttar þegar leikmaður Þróttar brýtur á henni og fékk að líta rauða spjaldið fyrir vikið. Keflvíkingar fengu aukaspyrnu sem Linli Tu tók sjálf og skoraði beint úr henni laglegt mark til að koma Keflavík í forystu (56').

Linli Tu var gríðarlega öflug í leiknum í gær.

Manni færri vildu Þróttarar fá vítaspyrnu stuttu eftir markið þegar sóknarmaður þeirra skallaði aftur fyrir sig og vildi meina að boltinn hefði farið í hönd Anitu Lindar Daníelsdóttur.

Þegar um korter lifði leiks var Sandra Voitane skipt inn á og það tók hana ekki nema fimm mínútur að setja mark sitt á leikinn. Keflvíkingar áttu góða sókn og Alma Rós Magnúsdóttir skaut í slánna, Voitane náði frákastinu og kláraði vel (79'). Keflavík með tveggja marka forystu, manni fleiri og í góðri stöðu þegar rúmar tíu mínútur eru til leiksloka.

Heimakonur settu mikla pressu á Keflvíkinga í kjölfarið og þær minnkuðu muninnn á 84. mínútu. Keflavík hélt þetta þó út og landaði að lokum góðum sigri.

Keflavík situr nú í sjöunda sæti með ellefu stig eins og Stjarnan sem er sæti ofar.