Samúel Kári til Víkings í Stavanger
Keflvíkingurinn Samúel Kári Friðjónsson sem leikið hefur sem atvinnumaður í knattspyrnu hjá Välerenga í Noregi hefur verið lánaður til norska félagsins Viking í Stavanger og gildir samningurinn út þetta tímabil. Samúel er 22 ára gamall og hefur verið í atvinnumennsku frá því hann var 16 ára og byrjaði ferilinn hjá enska félaginu Reading.
Að sögn fotbolti.net sem segir fyrstur frá þessu var Samúel fyrri hlutann á síðasta ári í lykilhlutverki hjá Välerenga en hann var í kjölfarið valinn í íslenska landsliðið sem fór á HM í Rússlandi sl. sumar. Eftir HM datt Keflvíkingurinn út úr myndinni hjá félaginu og hefur lítið komið við sögu.
Samúel, sem verður að láni út tímabilið hjá Viking segir við fotbolta.net að hann hlakki til að spila með Viking sem sé stór félag og með mikla sögu.
Á heimasíðu Valerenga kemur fram að Samúel sé með samning við félagið út árið 2021. Norsku Víkingarnir segjast á heimasíðu sinni vera ánægðir að vera komnir með íslenska landsliðsmanninn í sinn hóp.