Samúel Kári í tveimur landsliðshópum

Samúel Kári Friðjónsson, leikmaður Vålerenga og fyrrum leikmaður Keflavíkur hefur verið valinn bæði í A- landsliðshóp Íslands og U- 21 árs landsliðshóp Íslands.

A- landslið Íslands mætir Mexíkó þann 23. mars og Perú þann 27. mars og mun Samúel taka þátt í leiknum gegn Perú.
U-21 árs landslið Íslands mætir Írlandi þann 22. mars á Írlandi og Norður Írlandi þann 26. mars en Samúel mun einungis leika gegn Norður Írlandi vegna leiksins gegn Perú með A- landsliðinu.

Arnór Ingvi Traustason, leikmaður Malmö FF og fyrrverandi leikmaður Keflavíkur er einnig í A- landsliðshópi Íslands og er Sindri Kristinn Ólafsson, markmaður og leikmaður Keflavíkur með Samúel í U-21 árs landsliðshópnum.

Leikir A-landsliðs Íslands eru æfingaleikir og eru þetta síðustu leikir liðsins áður en lokahópur fyrir Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi verður valinn þann 11. maí nk. Leikur U-21 árs landsliðsins gegn Írlandi er vináttuleikur og er leikurinn gegn Norður-Írlandi liður í undankeppni EM 2019.