Samúel er mjög fjölhæfur og Arnór á mikið inni

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari lýsir kostum HM leikmanna Keflavíkur, Arnórs Ingva Traustasonar og Samúels Kára Friðjónssonar fyrir VF

„Það hefur líklega ekki komið mörgum á óvart að Samúel hafi verið valinn þó kannski einhverjum hafi kannski fundist það of snemmt,“ segir Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu þegar hann er spurður út í kosti Samúels Kára Friðjónssonar sem var valinn í HM hóp Íslands fyrir Rússland.
„Samúel er mjög fjölhæfur leikmaður og getur spilað margar stöður. Mikill karakter, vinnusamur og ósérhlífinn.

Hann endurspeglar svolítið þau gildi sem við erum að leita eftir í íslenskum landsliðsmönnum, að hlífa sér ekki neitt og geta bætt þá sem eru í kringum sig. Það eru hans sterkustu kostir. Hann er framtíðarleikmaður, framtíðar miðjumaður liðsins. Það er enginn spurning. Möguleikar Samúels eru líka miklir því hann er með þennan hæfileika að geta spilað fleiri stöður. Hann er að gera það í Noregi. Fyrir okkur er hann spennandi sem bakvörður núna og við munum örugglega þjálfa hann í þeirri stöðu en hann hefur einnig verið að spila sem fremsti maður í sínu félagsliði og þetta sýnir fjölhæfni hans,“ segir Heimir.


Arnór á helling inni

„Arnór Ingvi á mjög auðvelt með að koma sér í færi og hefur verið í slíku hlutverki hjá okkur. Við setjum hann inn á þegar við viljum skapa okkur eitthvað framávið. Það er hans styrkleiki þó svo hann hafi átt aðeins erfitt uppdráttar með að festa sig í sessi hjá sínum félagsliðum síðustu ár, svolítið staðið í stað en við vitum hvað hann getur og hann hefur sýnt það í leikjum og á æfingum hjá okkur hversu megnugur hann er,“ segir Heimir Hallgrímsson þegar við biðjum hann að lýsa kostum Arnórs Ingva en hann var áberandi í landsliðinu á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi fyrir tveimur árum. Arnór skoraði sigurmark liðsins gegn Austurríki á eftirminnilegan hátt.

„Arnór er mjög góður karakter, flottur í hóp, ber virðingu fyrir mönnum í kringum sig og hefur mikið af þeim gildum sem við erum að leita að í leikmönnum okkar. Við vitum að hann á helling inni og við ætlum að nota þennan tíma fram að HM til að finna það í honum og vonandi verður hann jafn mikilvægur fyrir okkur þá og hann var í Frakklandi.“

Heimir segir að sigurmarkið gegn Austurríki hafi verið gríðarlega mikilvægt. En skiptir reynsla hans ekki máli nú þegar farið er á annað stórmót í röð.
„Hann bjó til leiki sem við byggjum á í dag með þessu marki sem hann skoraði eftir frábæra samvinnu með fleirum. Arnór er kominn með reynslu af því að fljúga hátt. Við vitum líka að slík velgengni getur verið fallvölt en við erum alla vega búin að fara þangað og nú er Ísland í fyrsta skipti að byrja aftur eftir velgengni. Fara í annað mót eftir velgengni áður. Það er ný reynsla fyrir okkur,“ segir Heimir.