Sami Kamel bjargaði stigi í Eyjum
Keflvíkingar sitja enn á botni Bestu deildar karla í knattstpyrnu eftir jafntefli við ÍBV í Vestmannaeyjum í dag. Sami Kamel skoraði mark fyrir Keflavík en heldur hefur lifnað yfir leik Keflavíkur við að endurheimta hann úr meiðslum.
Eyjamenn fengu tilvalið tækifæri til að ná forystu eftir fimmtán mínútna leik þegar Oleksii Kovtun felldi sóknarmann og vítaspyrna dæmd. Brotið var glórulaust því engin hætta virtist aðsteðjandi en Eyjamenn misnotuðu vítaspyrnuna og Keflavík slapp með skrekkinn. Kannski í fyrsta sinn í langan tíma sem eitthvað fellur með Keflvíkingum.
Keflavík lenti undir rétt áður en fyrri hálfleik lauk eftir ágæta sókn Eyjamanna (43') en Keflvíkingar voru fljótir að svara með marki frá Sami Kamel í upphafi seinni hálfleiks (48') eftir góða sendingu frá Degi Inga Valssyni.
Keflvíkingar urðu fyrir áfalli þegar Gunnlaugur Fannar Guðmundsson þurfti að fara meiddur af velli (55') og tíu mínútum síðar gerðist Sindri Snær Magnússon sekur um dómgreindarleysi þegar hann lá og sparkaði boltanum í andlit andstæðings. Fyrir vikið var Sindra sýnt rauða spjaldið og Keflvíkingar því manni færri það sem eftir lifði leiks.
Eyjamenn náðu ekki að nýta sér liðsmuninn og Keflvíkingar sluppu fyrir horn með mikilvægt stig í botnbaráttunni.