Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

  • Sami árangur en aðeins karlarnir fá bónusgreiðslu
    Leikmenn Grindavíkur fagna sæti í efstu deild.
  • Sami árangur en aðeins karlarnir fá bónusgreiðslu
Miðvikudagur 28. september 2016 kl. 12:24

Sami árangur en aðeins karlarnir fá bónusgreiðslu

Fótboltalið Grindavíkur í meistaraflokki kvenna og karla náðu á dögunum þeim árangri að tryggja sér sæti í efstu deild á næsta leiktímabili. Fyrir árangurinn fær karlaliðið fimm til sex milljónir í bónusgreiðslu. Það eru um 300.000 krónur á hvern leikmann. Kvennaliðið, sem náði sama árangri, fær þó engar bónusgreiðslur.

Að sögn Jónasar Þórhallssonar, formanns knattspyrnudeildar Grindavíkur, er ástæðan sú að félagið fái litlar tekjur af kvennaboltanum. „Það eru allt aðrar aðstæður í Pepsideild karla en kvenna þar sem tekjurnar af karlaliðunum til félaganna eru miklu hærri en af kvennaliðunum. Markaðslega séð þá er það ekki sambærilegt að komast í upp í Pepsideild karla og kvenna. Ef við eigum að greiða sambærilegar bónusgreiðslur til kvennaliðsins verðum við að finna nýja tekjustofna. Þetta er miður en svona er staðan. Við sáum hvað KSÍ fékk fyrir árangur karlalandsliðsins á EM í sumar, þar erum við að tala um milljarða,“ segir hann.  

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Karlalið Grindavíkur féll úr efstu deild haustið 2012 og segir Jónas það hafa þýtt að tekjur knattspyrnudeildarinnar lækkuðu um 25 til 30 milljónir árlega. Þá voru laun leikmanna lækkuð um 35 prósent og þeim greitt fyrir níu mánuði á ári í stað tólf eins og áður hafði verið. Árið 2012 var markið sett á að komast aftur í efstu deild og þá var gerður sérstakur samningur við leikmenn karlaliðsins um bónusgreiðslur. „Það reynir því fyrst á samninginn núna og við erum að efna hann.“