Samantha Murphy hélt hreinu gegn Selfossi
Keflavík mætti Selfossi fyrir austan fjall í gær í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Liðin skiptu með sér stigunum í markalausum leik en Selfyssingar fóru illa með færin sín og Samantha Leshnak Murphy var á tánum í marki Keflavíkur, varði vel og greip inn í á réttum augnablikum.
Selfyssingar fengu fyrsta færið eftir rúmlega tíu mínútna leik en þá bjargaði Aníta Lind Daníelsdóttir á línu. Selfoss sótti meira en Keflavík llá meira til baka og átti fína spretti inn á milli. Eftir um klukkutíma leik hefði dómarin leiksins mögulega mátt dæma vítaspyrnu á leikmann Selfoss sem virtist handleika knöttinn innan eigin teigs en ekkert var dæmt og Keflavík bjargaði góðu stigi á útivelli.
Murphy hefur byrjað gríðarlega vel í marki Keflvíkinga í sumar en hún sýndi enn og aftur góðan leik og var besti maður Keflavíkur.
Að loknum fimm umferðum er Keflavík með sjö stig, eins og Stjarnan og ÍBV, og situr í sjötta sæti deildarinnar.