Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sævar stefnir á 240 kg
Fimmtudagur 8. febrúar 2007 kl. 14:52

Sævar stefnir á 240 kg

Massamót á laugardag

 

Réttstöðumót Massa fer fram í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur á laugardag og þar verður Lyftingamaður Reykjanesbæjar 2006 á meðal þátttakenda. Sævar Ingi Borgarsson hefur farið sigurför um lyftingaheiminn en mun ekki geta beitt sér að fullu á laugardag sökum bakmeiðsla. Sævar er keppnismaður mikill en ætlar að reyna að halda aftur af sér á laugardag, til að byrja með.

 

,,Það var fín hvatning að vera útnefndur lyftingamaður Reykjanesbæjar 2006 og það segir manni bara að halda áfram og bæta í,” sagði Sævar sem stefnir að því að taka um 230-240 kg í réttstöðunni um helgina. Brókarlaust, eða án hjálparbúnaðar í lyftingum, á Sævar best 245 kg í réttstöðulyftu. ,,2006 var næst besta árið mitt í lyftingum en 2005 þá varð ég heimsmeistari slökkviliðs- og lögreglumanna og Íslandsmeistari í kraftlyftingum og bekkpressu ásamt einhverju öðru,” sagði Sævar hress í bragði.

 

Á síðasta ári varð Sævar Reykjanesmeistari í bekkpressu og réttstöðu, fógetameistari í bekkpressu og Íslandsmeistari í bekkpressu. Áður en Sævar hóf að stunda lyftingar af krafti var hann að taka þátt í Fitnesskeppnum og stefnir hann að einni slíkri í haust. ,,Ég er búinn að bæta mig allsstaðar nema í samanburði en ég ákvað að hvíla mig aðeins á fitnessinu og fara meira út í lyftingar, þroska líkamann til að ná betri samanburði,” sagði Sævar en í Fitness eru keppendur kallaðir upp á svið og kallast það samanburður þegar dómarar fara vökulum augum yfir skrokkana. ,,Ég þurfti að bæta smá kjöti á mig og gerði það í lyftingunum. Eftir réttstöðumótið um helgina held ég áfram að byggja mig upp fyrir Icefitness í haust,” sagði Sævar.

 

Gera má ráð fyrir hrikalegum átökum í Massa á laugardag og hver veit nema Sævar fari örlítið fram úr sjálfum sér og setji upp smá sýningu. Hann er líklegur til þess enda keppnismaður mikill.

 

[email protected]

 

VF-mynd/ Þorgils Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024