Sætur sigur hjá Grindavík
Fyrsti sigur Grindavíkur í Lengjudeild kvenna í ár kom loks í gær þegar Grindavík tók á móti Aftureldingu. Eli Beard stimplar sig inn í liðið með frábærri stoðsendingu í sínum fyrsta leik.
Fyrir leikinn var Afturelding í þriðja sæti deildarinnar en Grindavík er í næstneðsta sæti. Það var ekki að sjá á leik liðanna að þau væru í baráttu á sitthvorum enda deildarinnar.
Grindvíkingar voru betri aðilinn í leiknum í gær og sköpuðu sér nokkur góð færi til að skora. Það gerðist þó ekki fyrr en á 70. mínútu þegar samvinna þeirra Eli Beard, sem er nýgengin til liðs við Grindavík, og Christabel Oduro skilaði marki. Beard átti þá frábæra sendingu á Oduro inn fyrir vörn Aftureldingar og Oduro lék fram hjá markverðinum og afgreiddi boltann af yfirvegun í markið.
Fyrsti sigur Grindvíkinga á Íslandmótinu í ár staðreynd og jafnframt var þetta fyrsta tap Aftureldingar í deildinni í ár.
Það hefur verið góður stígandi í leik Grindvíkinga undanfarið og þær hafa landað fimm stigum í síðustu þremur leikjum (tvö jafntefli og sigur). Grindavík er enn í fallsæti, er í áttunda sæti með átta stig, en HK er einu sæti ofar með níu stig og eiga leik til góða á Grindvíkinga. Í neðsta sæti er lið Augnabliks með fimm stig en þær hafa leikið tveimur leikjum færra en Grindavík.