Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Sá pabba keppa í boxi og féll fyrir bardagaíþróttum
Sigurjón krýndur sigurvegari í bardaganum í Skotland.
Föstudagur 29. september 2017 kl. 05:00

Sá pabba keppa í boxi og féll fyrir bardagaíþróttum

Hinn 26 ára gamli Sigurjón Rúnar Vikarsson vann sinn fyrsta MMA bardaga fyrir stuttu á Headhunters bardagakvöldinu í Skotlandi, en þar keppti hann ásamt þremur öðrum bardagamönnum frá Mjölni. Sigurjón keppti við Ross Mcintosh en bardagann sigraði Sigurjón eftir klofna dómaraákvörðun.
Sigurjón hafði áður æft box og varð Íslandsmeistari í boxi árið 2011. Þar að auki er hann með blátt belti í brasilísku jiu-jitsu.

Hvenær byrjaðir þú að æfa bardagaíþróttir?
„Ég féll fyrir bardagaíþróttum þegar ég sá pabba keppa í boxi í fyrsta skipti þegar ég var 11 eða 12 ára. Á þeim tíma átti ég heima í Danmörku og það var enginn boxklúbbur í nágrenninu þannig ég byrjaði að æfa júdó í staðinn. Ég flutti til Íslands árið 2006 þegar var 15 ára og prófaði að mæta á nokkrar box æfingar. En það var í raun ekki fyrr en árið 2010 sem ég fór að æfa af einhverju viti. Ég byrjaði síðan í Mjölni eftir þriggja ára pásu árið 2015 og hef verið virkur síðan þá.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Æfir þú oft í viku?
„Ég reyni að komast á þrjár til fjórar bardagaíþrótta æfingar í viku og svo einu sinni til tvisvar í ræktina ofan á það. En það er mjög sjaldan sem ég næ að fara svo oft.“

Hvar æfir þú?
„Ég æfi bardagaíþróttir í Mjölni og fer í ræktina í Lífsstíl. Fyrir bardagann minn núna tók ég einnig nokkrar auka æfingar hérna í Keflavík, bæði í boxhöll HFR og júdódeild UMFN.“

Bardaginn sem þú sigraðir í Skotlandi var þinn fyrsti MMA bardagi, hvernig var  tilfinningin?
„Tilfinningin var mjög góð og þetta var með því skemmtilegasta sem ég hef gert. Fyrir bardagann leið mér mjög vel, varð ekkert stressaður og fann að þetta var dagurinn minn. Þegar bjallan hringdi í fyrstu lotu kom smá fiðringur, en það fór um leið og hann byrjaði að sækja á mig. Ég fann strax að hann var stífur og mér fannst ég geta stjórnað fjarlægðinni þótt hann væri stærri. Tilfinningin strax eftir bardagann var mjög skrýtin því ég var að sjálfsögðu í skýjunum með sigurinn en um leið og ég kom inn í klefa „krassaði“ ég. Líklega var það bara spennufall eða ofreynsla, en ég jafnaði mig á því á korteri. Eftir það hringdi ég í Hrafnhildi, eiginkonu mína, sem virtist líka vera í sama spennufalli. Það var örugglega skemmtilegasta símtal sem ég hef átt.“

Var þetta eins og þú bjóst við?
„Ekki alveg. Það sem kom mér mest á óvart var að ég hélt ég yrði miklu stressaðri. Ég var alltaf að bíða eftir að það myndi kikka inn en svo gerðist það bara aldrei.“

Hvernig undirbjóstu þig fyrir bardagann?
„Ég reyndi að mæta á eins margar æfingar og ég gat en það hitti þannig á að það var brjálað að gera í vinnunni á sama tíma. Ég náði ekki að æfa eins mikið og ég hefði viljað, en sem betur fer á ég góða að sem hjálpuðu mér að stilla upp aukaæfingum sem ég hafði mjög gott af. Svo var kannski líka stærsta áskorunin að ná vigt þar sem ég var sirka 90 kíló þegar ég fékk bardagann en þurfti að koma mér í 77 kíló á sex vikum. Það kom mér mjög á óvart hversu auðvelt það var og var kominn á vikt fyrir áætlun.“

Hefur alltaf verið markmið að keppa í MMA?
„Nei, í rauninni ekki. Fyrir hálfu ári hefði ég aldrei giskað á að ég myndi gera þetta,  en er mjög feginn að hafa gert það núna.“

Hefur reynslan í boxinu og jiu-jitsu hjálpað þér mikið í MMA?
„Box reynslan hefur klárlega hjálpað mér. Boxið er mitt sterkasta vopn í MMA og ég náði að nota það vel í bardaganum. Ég er með blátt belti í jiu-jitsu en vil bæta mig þar áður en ég tek annan bardaga.“

Hvað er svo framundan hjá þér?
„Ég mun klárlega gera þetta aftur einhvern tímann, en ég var búinn að skipuleggja gott frí eftir bardagann og ætla því að njóta þess núna og meta svo eftir það hvort það sé eitthvað slíkt á næstunni hjá mér. Ég lít ekki á þennan bardaga sem byrjun á einhverjum ferli hjá mér heldur tók ég þennan bardaga vegna þess að mér fannst ég þurfa áskorun til þess að koma hausnum á réttan stað. En svo er aldrei að vita hvort það breytist ef það heldur áfram að ganga vel.“