Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Rúst!
Sunnudagur 28. mars 2004 kl. 20:55

Rúst!

Keflvíkingar unnu ótrúlegan sigur á Grindavík, 124-76 í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik. Þar með tryggðu þeir sér oddaleik á heimavelli Grindvíkinga næstkomandi þriðjudag.

Leikurinn var aldrei spennandi þar sem Keflvíkingar tóku umsvifalaust frumkvæðið og héldu því allan tímann. Arnar Freyr Jónsson keyrði þá áfram og skoraði jafnt úr langskotum og gegnumbrotum, auk þess sem Magnús Þór Gunnarsson, sem var í byrjunarliðinu í dag, stóð sig vel.
Staðan eftir fyrsta leikhluta var 32-16, og munurinn jókst stig af stigi eftir því sem á leið. Nick Bradford átti skínandi leik fyrir Keflavík fram að leikhléi, en Darrel Lewis hélt sínum mönnum á floti með góðri frammistöðu.

Í hálfleik var staðan 62-39 heimamönnum í vil og þeir gáfu ekkert eftir í hálfleik. Þeir voru allsráðandi um allan völl þar sem þeir hittu úr yfir 70% 2ja stiga skota sinna og voru einráðir undir körfunum þar sem þeir hirtu 44 fráköst á móti 19 hjá Grindvíkingum, en hjá þeim var skarð fyrir skildi þar sem Jackie Rogers átti við meiðsli að stríða.
Keflvíkingar hafa í undanförnum leikjum brennt sig illa á því að halda ekki dampi í leikjum sínum og tapað niður öruggu forskoti. Því var ekki til að skipta í kvöld því að þeir unnu alla leikhluta með sannfærandi hætti og síðustu mínúturnar var orðið ljóst í hvað stefndi.
Stórsigur var staðreynd og því ráðast úrslitin í oddaleik sem fer fram í Grindavík á þriðjudaginn.

„Þetta var svakalegt! Vörnin vann þennan leik.“ sagði Falur Harðarson, annar þjálfara Keflvíkinga. „Við lékum vel allan tímann og vorum staðráðnir í að gefa ekki eftir. Við sjáum nú hvað við getum og ætlum okkur að vinna á þriðjudaginn og ekkert annað!“
Friðrik Ingi hjá Grindavík sagði sigur Keflvíkinga verðskuldaðan. „Við byrjuðum illa og náðum okkur aldrei af stað og sukkum dýpra og dýpra. Þeir hittu hins vegar á dag þar sem allt gekk upp hjá þeim og öll skot fóru niður jafnvel frá mönnum sem ekki eru þekktir sem góðir skotmenn. En á þriðjudaginn verðum við á okkar heimavelli þar sem við töpum sjaldan og við ætlum okkur sigur þar.“

Hér má finna tölfræði leiksins

 

VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024