RÚNNI JÚLL OG KEFLVÍKINGAR SAMAN
Meistaraflokkur Keflavíkur í knattspyrnu og stór-rokkarinn Rúnar Júlíusson hafa ákveðið að hefja samstarf um sölu á þremur geisladiskum. Þetta er safndiskarnir Gleðileg jól (2000kr.), Bítlabærinn Keflavík (2 diskar á 2000 kr.) auk nýjustu afurðar Rúnars, sjálfur Farandskugginn.Strákarnir í meistaraflokki karla stefna á að fara í æfingaferð til einhverra landa á meginlandi Evrópu í vor og er salan á diskunum liður í þeirri fjáröflun. Hluti hverrar sölu rennur beint í ferðasjóð Keflvíkinga en þeir fóru síðast í æfingaferð árið 1993 og voru reyndar eina liðið í efstu deild á síðasta ári sem ekki fór í æfingaferð. Rétt er að geta að hverjum geisladisk fylgir sérstakur þakklætisvottur frá Keflavíkurliðinu. Meistaraflokksmenn eru hæstánægðir með samstarfið við Rúnar sem sjálfur sýndi oft snilli sína á Keflavíkurvelli hér áður fyrr og vilja þakka honum kærlega fyrir aðstoðina um leið og þeir vonast eftir góðum móttökum bæjarbúa.