Rúnar hefur þurft að reima á sig skóna
Njarðvíkurkonur hafa verið í ströggli í vetur
„Ég hef fulla trú á að ef við náum því, að þá getum við veitt öllum liðum keppni og fyrst okkur tókst að verða Íslandsmeistarar í fyrra eftir að hafa endað í fjórða sætinu, því ættum við ekki að geta endurtekið leikinn,“ segir Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur í körfubolta.
Njarðvík var nýliði í Subway deild kvenna á síðasta tímabili og því kom kannski einhverjum á óvart að þær skyldu enda með Íslandsmeistaratitilinn í sínum fórum í lok leiktíðar. Gengið hefur ekki verið eins gott á þessu tímabili, þjálfari liðsins, Rúnar Ingi Erlingsson segir nokkrar ástæður fyrir því en er þó bjartsýnn á framhaldið. „Við enduðum reyndar í sama sæti í deildakeppninni í fyrra og við erum í núna, fjórða sæti en ég skil að kröfur og væntingar til Íslandsmeistara séu meiri en það. Við þurftum nánast að púsla saman nýrri íslenskri hersveit en þrjár af þeim stelpum sem voru í sjö manna róteringu í úrslitakeppninni í fyrra, fóru í háskólaboltann í Bandaríkjunum. Í fyrra gátum við æft og spilað með sama mannskapinn nánast frá fyrstu æfingu, þ.e. við lentum ekki í neinum meiðslum, það munar gífurlega mikið um það. Sú hefur ekki verið raunin á þessu tímabili, ég er með tvo af sömu útlendingum og í fyrra og önnur þeirra, Lavinia Joao Gomes Da Silva er bæði búin að vera meidd og fór í landsliðsverkefni. Stundum náði ég ekki einu sinni tíu leikmönnum á æfingu og þurfti sjálfur að reima á mig skóna, svo ég myndi segja að þetta séu helstu ástæðurnar fyrir því að gengið hafi ekki verið eins gott og í fyrra.“
Andlegi þátturinn lakari
Njarðvíkingar sáu í fyrra þegar leið á tímabilið, að hugsanlega væru þær með lið sem myndi geta keppt við þau bestu því öll toppliðin höfðu legið í valnum. Á þessu tímabili hefur ekki gengið eins vel að vinna stóru leikina sem þó hafa flestir verið nokkuð jafnir. „Við höfum ekki verið nógu sterkar andlega á þessu tímabili og ég tel nokkuð ljóst að við söknum íslensku stelpnanna sem fóru í háskólaboltann, Vilborg fyrirliði er t.d. gífurlegur leiðtogi og við höfum klárlega saknað hennar. Lavina er sömuleiðis mikill reynslubolti og það var slæmt að missa hana af æfingum í vetur en nú er hún komin til baka, íslensku stelpurnar sem við fengum í staðinn eru alltaf að verða meiri og meiri Njarðvíkingar svo ég hef fulla trú á að við náum okkur á strik á lokasprettinum sem fer að hefjast,“ segir Rúnar Ingi.
Af hverju ekki aftur meistarar?
Njarðvíkingar þurfa frekar að líta niður fyrir sig í stað þess að ætla freistast til að hækka í töflunni en tólf stigum munar á þeim og Haukastelpum sem eru í þriðja sæti. Hins vegar munar ekki nema þremur á Njarðvík og grönnum þeirra sunnan Þorbjarnar, Grindavíkurkonum og hefði ekki verið fyrir frekar óvænt tap þeirra gulu á móti Fjölni á sunnudaginn, þá hefði verið um sannkallaðan fjögurra stiga leik að ræða í næstu umferð, sem einmitt fer fram miðvikudagskvöldið 1. mars í Grindavík.
„Ég er búinn að segja stelpunum að leikurinn á móti Grindavík sé mikilvægasti leikur tímabilsins til þessa. Með sigri setjum við ansi breitt bil á milli liðanna en ef við töpum verður þetta blóðug barátta. Aðalatriðið fyrir mitt lið er hins vegar að geta fundið stöðugleika og ná réttri róteringu á liðinu, það er ekki hægt þegar meiðsli eru fyrir hendi. Nú eru allar heilar, síðasta umferðin í deildarkeppninni er að hefjast og nú er tíminn til að koma sér á beinu brautina og spila okkar besta bolta. Ég hef fulla trú á að ef við náum því, að þá getum við veitt öllum liðum keppni. Fyrst okkur tókst að verða Íslandsmeistarar í fyrra eftir að hafa endað í fjórða sætinu, því ættum við ekki að geta endurtekið leikinn,“ sagði Rúnar Ingi í lokin.