Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mánudagur 7. júlí 2008 kl. 00:36

"Risinn" lagður að velli í annað sinn á fjórum dögum

Keflvíkingar geta svo sannarlega unað vel við uppskeruna úr síðustu leikjum á Sparisjóðsvellinum því þar hefur stórlið FH verið lagt að velli tvisvar á fjórum dögum. Í kvöld skoraði Magnús Sverrir Þorsteinsson sigurmark Keflavíkur þegar venjulegum leiktíma var lokið og skaut sínum mönnum þannig upp að hlið FH á toppi Landsbankadeildarinnar.
 
Mikil eftirvænting var eftir þessum leik þar sem fróðlegt var að sjá hvaða áhrif tapið á fimmtudag myndi hafa á leik liðanna.
 
Leikurinn var opinn og skemmtilegur þar sem bæði lið léku sóknarbolta án þess þó að skapa sér afgerandi færi. FH voru engu að síður meira með boltann og lágu meira fram á vellinum þar sem framlínan sem samanstóð af Arnari Gunnlaugssyni, Tryggva Guðmundssyni og Atla Guðnasyni.
 
Það voru hins vegar heimamenn sem áttu fyrsta almennilega færið í leiknum þegar bakvörðurinn knái Guðjón Árni Antoníusson prjónaði sig inn í vörn FH utan af kanti á 18. mínútu. Hann komst  inn í vítateig en missti knöttinn of langt frá sér til að ná góðu skoti.
 
Félagi hans, Hörður Sveinsson, átti síðan gott skot úr þröngu færi, alveg upp við endalínu inni í vítateig, en hann lyfti boltanum hátt upp og rétt framhjá fjærstönginni.
 
Á þessum tíma, um miðjan hálfleikinn voru Keflvíkingar búnir að ná undirtökunum og komu Daða Lárussyni, markmanni FH, og varnarlínunni í mikil vandræði.
 
Það var þó langt eftir af leiknum og FH-ingar áttu sín færi. Guðmundur Sævarsson komst til dæmis inn í teig af hægri kanti á 28. mínútu, en átti glórulausa fyrirgjöf út í buskann þegar félagar hans voru fjölmennir fyrir framan markið.
 
Tíu mínútum síðar átti gamli jaxlinn Tommy Nilsen skemmtilegt upphlaup og lét vaða af um 20m færi en skot hans fór naumlega yfir.
 
Alti Guðnason átti svo síðasta færi hálfleiksins þegar hann skaut yfir úr vítateignum á 40. mínútu.
 
Heilt yfir höfðu Keflvíkingar átt beittari sóknir í fyrri hálfleik en FH-ingar verið meira í sókn án þess þó að skapa sér mörg góð færi.
 
Heimamenn áttu fyrsta færið í seinni hálfleik þegar Daði varði hættulegt skot Guðmundar Steinarssonar úr aukaspyrnu sem dæmd var eftir brot á Guðjóni Árna rétt utan vítateigs.
 
Leikurinn var nokkuð jafn eftir það. Hvorugt liðið skapaði sér nokkur dauðafæri, en fín skemmtun þrátt fyrir markaþurrðina.
 
Hólmar Örn Rúnarsson reyndi þó á Daða á 67. mínútu, en skot hans úr aukaspyrnu fór í varnarmann áður en Daði slæmdi hendi í boltann sem fór í stöng og í horn.
 
Á lokakaflanum voru Keflvíkingar mun líklegri til að setja mark. Þeir voru einbeittari og skarpari í sínum sóknum sem bar næstum árangur á 84. mínútu. Þá skallaði Svíinn Kenneth Gustavsson boltann í slá eftir sendingu Hólmars, og í kjölfarið fylgdi Hörður eftir og átti tvö skot, annað var varið á línu og hitt sló Daði í horn.
 
Það var eins og markið lægi í loftinu og ljóst að Keflvíkingar ætluðu ekki að sætta sig við jafntefli úr þessum leik.
 
Það bar loks árangur á örlagastundu, tæpum tveimur mínútum eftir venjulegan leiktíma, þegar varamaðurinn Magnús Sverrir átti gott upphlaup, gaf út á hægri kant á Hörð sem lyfti knettinum inn í teig þar sem Magnús var sjálfur mættur og þrumaði honum í fjærhornið, óverjandi fyrir Daða.
 
Völlurinn lék á reiðiskjálfi af fagnaðarlátum, en FH lögðu allt í sóknina þann stutta tíma sem lifði leiks. Þeir fengu gott færi á að þagga niður í Pumasveitinni og félögum þeirra í Keflavíkurstúkunni, þegar brotið var á FH-ingi um 25m frá marki en skotið var slakt og þar við sat. Keflvíkingar sýndu og sönnuðu að það er talsvert í þetta lið spunnið og þeir eru til alls líklegir í sumar ef svona heldur áfram.
 
Þórarinn Brynjar Kristjánsson kom inná sem varamaður í leiknum og sagðist gríðarlega ánægður með sigurinn. „Þetta var svakalegur leikur og mjög mikilvægur fyrir okkur. Með tapi hefðu FH-ingar komist langt framúr okkur og það var ennþá sætara að klára þetta svona undir lokin. Þetta var algjört draumamark hjá Magga.“
 
Magnús Sverrir sagði tilfinninguna að skora sigurmarkið hafa verið æðislega. „Við hefðum ekki mátt tapa þessum leik. Við vorum klárir í þetta, höfðum meðbyr með okkur frá síðasta leik og notuðum það. Í fyrri hálfleik vantaði kannski smá gæði í þetta hjá okkur til að byrja með en þetta kom allt. Við erum með fullt af góðum leikmönnum sem geta tekið af skarið og það gerðist í dag.“
 
 
VF-myndir/Þorgils – Sjá fleiri myndir á Ljósmyndavef Víkurfrétta
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024