Risasigur Víðismanna í síðasta leik: Mæta Tindastól í úrslitakeppninni
Deildarkeppninni í 3. deild karla er nú lokið og nú þegar er ljóst hvaða lið munu mætast í úrslitakeppni deildarinnar og berjast um sæti í 2. deild að ári. Víðismenn mættu Afríku um síðustu helgi og var þar um sannkallaðan risasigur Víðismanna að ræða.
Víðismenn, á toppi deildarinnar, mættu Afríku, á botni deildarinnar, og höfðu 0-18 sigur gegn Afríku á gervigrasinu í Laugardal. Ótrúlegir yfirburðir Víðismanna sem munu mæta Tindastól í úrslitakeppninni.
Að lokinni riðlakeppninni í 3. deild voru Víðismenn í efsta sæti með 36 stig í B-riðli og höfðu sigur í riðlinum. Víðir gerði 77 mörk í riðlakeppninni og fengu aðeins á sig 11 mörk og voru því með 66 mörk í hagstætt markahlutfall sem er glæsilegur árangur. GG úr Grindavík hafnaði í 5. sæti riðilsins með 22 stig, gerðu 30 mörk og fengu á sig 29 og voru því með eitt mark í hagstætt markahlutfall. GG kemst ekki inn í úrslitakeppnina að þessu sinni.
Úrslitakeppnin í 3. deild karla hefst næstkomandi laugardag, 25. ágúst þar sem Víðismenn munu hefja leik á útivelli gegn Tindastólsmönnum. Leikurinn hefst kl. 14:00 á Sauðárkróksvelli en síðari leikur liðanna fer svo fram á Garðsvelli þann 28. ágúst kl. 17:30.