Ríkjandi heimsmeistari er fyrsti Landsmótsmeistarinn í Kasínu
Ingvar Guðjónsson frá Grindavík kom, sá og sigraði í fyrsta Kasínumótinu á Landsmóti UMFÍ 50+. Ingvar sem er ríkjandi heimsmeistari í greininni, sló hvergi af og tapaði varla legg allt mótið.
Ingvar rúllaði andstæðingum sínum í riðlakeppninni upp, einum af öðrum og mætti yngri bróður sínum, Leifi, í undanúrslitunum. Leifur telst nokkuð lunkinn spilari og náði að sprikla vel í stóra bróður en reynsla heimsmeistarans kom að góðum notum í lokin og Ingvar vann, 21-16.
Í úrslitlaleiknum mættust gamlir fjendur en þeir Ingvar og Gunnlaugur Sævarsson, sem er einn fremsti Bridge-spilari landsins, háðu margar orrusturnar á Kasínuvígvellinum um borð í Alberti GK á sínum tíma. Þegar kom að úrslitaleiknum var áhorfið á Facebook-live aftur orðið mjög gott en það hafði dottið niður fljótlega eftir að sumir spilarar voru dottnir úr leik. Spennan var gífurleg þegar þeir hófu spilið en hún hvarf nánast samstundis því Ingvar einfaldlegi rúllaði Gunnlaugi upp. Strax hófst sigurhátíð stuðningsfólks Ingvars sem var mætt til að styðja sinn mann. Gunnlaugur var hins vegar ekki sáttur, benti réttilega á að skv. reglunum sem voru settar upp fyrir mótið, þyrfti að vinna tvær Kasínur til að standa uppi sem Landsmótsmeistari. Ingvar þurfti því að leggja kampavínsglasið frá sér og setja sig aftur í keppnisgírinn en oft á tíðum er hættulegt fyrir afreksíþróttamanninn að vera byrjaður að fagna of snemma en Ingvar er eldri en tvæ vetur í bransanum og til að gera langa sögu stutta, niðurlægði hann Gunnlaug í öðru spilinu og fór því í gegnum mótið án þess að tapa leik. Ingvar er því verðskuldað, fyrsti Landsmótsmeistarinn í Kasínu. Hann var himinlifandi þegar blaðamaður náði tali af honum.
„Það verður erfitt að ná mér niður úr skýjunum eftir þennan sigur. Mér fannst heimsmeistaratitillinn vera stór en mér líður þannig í hjartanu í dag að þessi Landsmótstitill sé stærri því þegar sagan verður gerð upp, var mitt nafn það fyrsta til að rata á bikarinn. Ég er í raun hálfmeyr í dag, er ofboðslega stoltur og sigurhátíðin sem stuðningsfólk mitt var búið að skipuleggja mun líklega færa sig út fyrir landsteinana. Ég á auðvitað dyggan hóp stuðningsfólks úti í heimi eftir heimsmeistaratitlana tvo sem ég vann, það er víst verið að skipuleggja skrúðgöngur fyrir mig út um allan heim. Ég ætla samt að byrja að fagna með stuðningsfólki mínu hér á landi, hér liggja ræturnar,“ sagði kampakátur Landsmótsmeistari 2024, að lokum.