Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

  • Rífur utan af sér gallabuxurnar
    Emil Ragnar er 22 Keflvíkingur sem stefnir hátt í ólympískum lyftingum.
  • Rífur utan af sér gallabuxurnar
    Ólympískar lyftingar snúast um tvær greinar, snörun og jafnhendingu. Jafnhending (e. clean & jerk) er þegar stöng er lyft í tveimur hreyfingum upp fyrir höfuð. Snörun (e. snatch) er þegar stöng er lyft með útrétta arma frá gólfi og upp fyrir höfuð í einni samfelldri hreyfingu með því að toga í stöngina og beygja sig undir hana á réttu augnabliki.
Laugardagur 30. apríl 2016 kl. 12:00

Rífur utan af sér gallabuxurnar

Emil Ragnar er einn af þeim bestu á landinu í ólympískum lyftingum

Keflvíkingurinn Emil Ragnar Ægisson er einn af betri lyftingaköppum landsins. Hann á sér háleit markmið í ólympískum lyftingum þar sem hann æfir nánast eins og atvinnumaður. Á nýafstöðnum Reykjavíkurleikum náði Emil frábærum árangri. Hann varð efstur Íslendinga á mótinu en hann hafnaði í þriðja sæti í samanlögðu í karlaflokki. Víkurfréttir tóku púlsinn á þessum agaða og hrausta íþróttamanni og fræddust um ólympískar lyftingar sem njóta sífellt aukinna vinsælda.

Emil var áður í knattspyrnu en byrjaði að lyfta um 18 ára aldur. Hann fór að fikta við kraftlyftingar sem fljótlega þróuðust út í ólympískar lyftingar þar sem hann er að blómstra núna. Hann hætti í fótbolta eftir að meiðsli settu strik í reikninginn en áhuginn fjaraði fljótt út eftir það. Hann er rétt nýorðinn 22 ára. Í þeim aldursflokki er Emil meðal þeirra bestu á landinu. „Ég fann mig strax í lyftingunum. Ég var mikið að pæla í tækninni og hvernig maður ætti að hreyfa sig í þessu. Það leiddi mig meira út í ólympískar,“ segir Emil

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ólympískar lyftingar snúast um tvær greinar, snörun og jafnhendingu. Jafnhending (e. clean & jerk) er þegar stöng er lyft í tveimur hreyfingum upp fyrir höfuð. Fyrri hreyfingin er frívending og síðari hreyfingin er jafnhöttun. Emil hefur lyft 147 kg í þessari grein. Snörun (e. snatch) er þegar stöng er lyft með útrétta arma frá gólfi og upp fyrir höfuð í einni samfelldri hreyfingu með því að toga í stöngina og beygja sig undir hana á réttu augnabliki. Emil á best 115 kg í þeirri grein.

Gríðarleg vinna og tækni að baki árangri

„Eins og staðan er núna þá stefni ég að því að komast á topp listann yfir Íslendinga í ólympískum. Síðan langar mig að taka þátt á Evrópumeistaramóti. Það er langtímamarkmið að komast í A-flokk, sem er efsti styrkleikaflokkur á því móti, það yrði toppurinn.“
Emil ver ótal klukkustundum í að fínpússa tæknina í lyftingasal Massa í Njarðvík. Þar framkvæmir hann stanslausar endurtekningar á sömu hreyfingunum. Slíkt krefst mikils aga. „Þetta snýst um tæknina og að skila inn mikilli vinnu. Árangurinn liggur þar,“ segir Emil sem æfir sjö til ellefu sinnum í viku, þá rúmlega tvær klukkustundir í senn. En hvað er svona skemmtilegt við ólympísku lyftingarnar? „Það þarf að hafa mikla snerpu og hreyfigetu. Mér finnst ólympískar hafa það fram yfir kraftlyftingar, þetta er meiri íþróttamennska og alhliða styrkur. Þetta er svo mjög krefjandi tækni sem verður mjög skemmtileg þegar maður nær henni.“

Það eru því ekki margir frídagar hjá þessum efnilega lyftingakappa, en þannig vill hann helst hafa það. „Þegar það dettur inn frídagur þá reynir maður að komast upp í bústað. Annars finnst mér nú frídagarnir gera mér meira mein en nokkuð annað. Þegar maður er vanur að hreyfa sig alla daga þá bregst líkaminn öðruvísi við á frídögum.“ Mikið skipulag fylgir því að bæta sig sífellt og miklar pælingar fara í að taka ákveðnar þyngdir og hversu margar endurtekningar skal taka. Emil hefur vissulega bætt sig mikið frá því að hann byrjaði og hann er alltaf með ákveðnar tölur í huga sem hann ætlar sér að ná.

Er ekki mikið að vinna með gallabuxur

Emil hefur bætt á sig um 10 kílóum af vöðvum síðan hann fór á fullt í lyftingarnar. Það getur haft vandræði í för með sér þegar vöðvarnir stækka, til dæmis þegar kemur að fatakaupum. „Þær hafa margar gallabuxurnar slitnað hjá manni. Ég er ekki mikið að vinna með þær í dag, maður er meira bara í jogging gallanum,“ segir Emil léttur í bragði en lærin á kappanum eru engin smásmíði. Það þarf að fóðra þessa vöðva og Emil er á ströngu mataræði. Hann innbyrðir um 3000 til 3500 kaloríur á dag og er að eigin sögn mjög vanafastur í mataræði. Hann velur matinn að miklu leyti eftir því hvernig hann fer í maga. Hann notar engin fæðubótaefni fyrir utan gamla góða Lýsið. Svona er dæmigerður dagur í mataræði hjá Emil.


 


 

Emil Ragnar Ægisson