Rífandi stemmning á „El Clásico“
Það var heldur betur stemmning í Reykjaneshöllinni þegar nágrannaliðin RB og Hafnir áttust við í innanbæjarslag í A-riðli 5. deildar karla í knattspyrnu á mánudag.
Bekkurinn var þétt setinn áhorfendum sem létu hátt í sér heyra og hvöttu sín lið til dáða.
RB komst í forystu á 40. mínútu með marki Calvin Agustin Castagnino. Hafnir jöfnuðu hins vegar í uppbótartíma fyrri hálfleiks, þar var að verki Sigurður Þór Hallgrímsson (45’+1).
Í seinni hálfleik kom Slawomir Jaworski inn á í liði RB og það gerði gæfumuninn. Hann skoraði í tvígang (77’ og 86’) og RB hafði að lokum 3:1 sigur.
RB er efst í riðlinum með 22 stig en Hafnir í því þriðja með þrettán stig.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók myndir sem eru í meðfylgjandi myndasafni neðst á síðunni. Myndskeiðið hér að neðan fangar stemmninguna sem ríkti í Reykjaneshöllinni.