Reynissigur í toppslagnum
Reynismenn unnu sanngjarnan sigur á Völsungi á N1-vellinum í gær í toppslagnum í 2. deild karla í knattspyrnu. Mörk frá Rúnari Guðbjartssyni og Guðmundi Gísla Gunnarssyni tryggðu að stigin þrjú urðu eftir í Sandgerði þrátt fyrir að Ásgeir Sigurgeirsson hafi komið gestunum yfir í upphafi leiks.
Það var ekki mikið liðið af leiknum þegar Ásgeir Sigurgeirsson kom Völsungi yfir. Aron Elís Árnason í marki Reynis misreiknaði fyrirgjöf sem kom frá hægri og missti af boltanum þannig að Ásgeir náði að skalla knöttinn í netið hjá heimamönnum af vítateigslínunni. Eftir markið sóttu Reynismenn í sig veðrið og voru búnir að jafna tíu mínútum síðar. Samspil Rúnars Guðbjartssonar og Guðmundar Gísla Gunnarssonar endaði með því að Rúnar fékk gott færi sem hann nýtti vel. Heldur dróg úr skemmtanagildi leiksins eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn. Völsungar lágu aftarlega á vellinum og treystu á að langar sendingar á hinn unga Ásgeir Sigurgeirsson, sem var besti maður gestanna í leiknum. Að sama skapi náðu heimamenn ekki að opna þétta vörn Húsvíkinganna.
Í síðari hálfleik voru Reynismenn sterkari allan tímann og fengu nokkur ágæt marktækifæri. Allur kraftur var hins vegar úr sóknarleik Völsunga eftir hléið og þeir fengu ekki eitt einasta marktækifæri á síðustu 45 mínútunum. Pétur Þór Jaidee fékk fyrsta færi Reynismanna á 48. mínútu þegar hann átti gott skot sem varnarmenn Völsunga björguðu í horn. Sandgerðingarnir héldu áfram að sækja og uppskáru mark á 58. mínútu. Guðmundur Gísli Gunnarsson tók þá hornspyrnu frá hægri. Hann sá að Dejan Pesic var ekki vel staðsettur í markinu og setti knöttinn yfir hann og í hornið fjær. Mark beint úr hornspyrnu.
Nokkrum mínútum síðar var varamaðurinn Jóhann Magni Jóhannsson nálægt því að bæta við forystu heimamanna þegar hann náði góðu skoti eftir flotta fyrirgjöf frá Pétri Þór Jaidee en í þetta skiptið varði Dejan Pesic vel. Um miðjan hálfleikinn vildu Reynismenn fá víti þegar þeir vildu meina að Grétar Ólafur Hjartarson hefði verið felldur þegar hann var að prjóna sig í gegnum vörn Völsunga, en ágætur dómari leiksins Sigurður Óli Þorleifsson sá ekki ástæðu til að flauta. Í næstu sókn voru heimamenn enn á ný nálægt því að bæta við marki eftir að góð fyrirgjöf Péturs Þórs endaði hjá Jóhanni Magna en hann náði ekki að koma knettinum í netið. Nokkrum mínútum síðar átti Egill Jóhannsson langa og nákvæma sendingu á Grétar Ólaf sem átti fínt skot rétt yfir. Reynismenn héldu yfirburðunum það sem eftir lifði leiks og innbyrtu sanngjarnan 2-1 sigur í toppslag 2. deildar.
Reynir.is