Reynismenn unnu nágrannaslaginn - myndir úr leiknum
Víðir í virkilega slæmum málum
Nágrannaslagur Reynis og Víðis fór fram í gærkvöldi á Nesfisksvellinum í Garði þar sem að Sandgerðingar fóru með sigur af hólmi, 0-1. Það var góð stemmning í Garðinum í þessum nágrannaslag og fjöldi áhorfenda.
Sandgerðingar voru mun sterkari aðilinn í leiknum. Jafnt var í hálfleik en svo skoruðu Sandgerðingar gott mark. Þar var Pétur Þór Jaidee að verki á 60. mínútu.
Spilandi þjálfara Víðismanna, Rafni Markúsi Vilbergssyni, var vikið af leikvelli á 85. mínútu leiksins eftir að hafa komið inná sem varamaður 10 mínútum áður. Hann gaf einum varnarmanni Reynis olnbogaskot að því er virtist að tilefnislausu. Eftir það sóttu heimamenn stíft og munaði litlu að þeir skoruðu þegar boltinn endaði í stönginni eftir skot Einars Karls Vilhjálmssonar. Það hefði verið gegn gangi leiksins ef Víðir hefði jafnað en hver spyr að því í fótbolta.
Reynismenn fara með sigrinum í 3. sæti deildarinninar með 16 stig en Víðismenn eru búnir að koma sér í ansi slæm mál á botni deildarinnar þar sem þeir hafa aðeins 2 stig og hafa ekki unnið leik í sumar.
Hér má sjá fleiri myndir úr nágrannaslagnum á glæsilegum Nesfisksvellinum í Garði.
Pétur fagnar marki sínu, Víðismenn súrir í bragði.
Þetta var ekta nágrannaslagur þar sem hvorugt lið gaf eftir. Mikil barátta í leikmönnum.
Rafn Víðisþjálfari var ekki búinn að vera inná nema í nokkrar mínútur þegar hann fékk rautt spjald fyrir ljótt olnbogaskot.
Skot Einars K. Vilhjálmssonar endaði í stöng Reynismanna rétt fyrir leikslok.
Hér má sjá nokkra gamla Víðiskappa sem léku m.a. með félaginu þegar það var í efstu deild.