Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Reynismenn sáu rautt
Fimmtudagur 14. apríl 2005 kl. 22:33

Reynismenn sáu rautt

Reynir Sandgerði steinlá í Garðabænum í kvöld þegar liðið tapaði 5-0 gegn Stjörnunni í deildarbikarkeppni KSÍ. Staðan var 2-0 í hálfleik Stjörnunni í vil og skoruðu heimamenn þriðja markið snemma í seinni hálfleik. Í stöðunni 3-0 misstu Sandgerðingar tvo menn út af með rauð spjöld. Karl Finnbogason fékk tvö gul spjöld, það seinna fyrir kjaftbrúk og Hjörtur Fjeldsted fékk beint rautt spjald, einnig fyrir munnsöfnuð. Sandgerðingar vörðust ágætlega um hríð þrátt fyrir að vera tveimur mönnum færri en máttu horfa á eftir boltanum tvisvar sinnum til viðbótar í netmöskvann.

„Við erum ekki upp á okkar besta í augnablikinu en vissulega er stefnan fyrir sumarið að koma okkur upp um deild,“ sagði Gunnar Oddsson þjálfari Reynis í samtali við Víkurfréttir. „Leikmenn hafa komið til okkar og einnig hafa nokkrir farið, sem stendur þá erum við í ágætis málum varnarlega séð og líka á miðjunni en það vantar enn smá brodd í sóknina. Maður rennur alltaf svolítið blint í sjóinn í 3. deildinni en mig grunar að ásamt okkur verði ÍH, Grótta og Númi í toppbaráttunni í sumar,“ sagði Gunnar að lokum. Reynismenn leika næst við Fjölni í Egilshöllinni þann 24. apríl og hefst sá leikur kl. 21:00.

VF-mynd/ frá leik Reynis og Magna síðasta sumar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024