Reynismenn sáu á eftir dýrmætum stigum
Völsungur getur lyft sér í annað sætið með sigri á Víði um helgina
Reynir Sandgerði gerði 2-2 jafntefli við Kára á K&G vellinum í 3. deild karla en leikið var í Sandgerði í gærkvöldi. Heimamenn glotruðu niður tveggja marka forystu og þurftu að sjá á eftir tveimur dýrmætum stigum í toppbaráttunni.
Reynismenn komust í 2-0, fyrra markið gerði markarefurinn Jóhann Magni Jóhannsson á 12. mínútu og hinn síungi Scott Ramsey bætti við öðru marki á þeirri 55.
Akurnesingar neituðu hins vegar að leggja árar í bát og minnkuðu munin á 68. mínútu og það var svo á 86. mínútu sem að Kári jafnaði metin og tryggði sér jafntefli.
Reynismenn eru í mikilli baráttu við lið Völsungs um laust sæti í 2. deild en með jafnteflinu í gær gefa Reynismenn Húsvíkingum færi á því að komast upp fyrir sig í töflunni, en Völsungur á leik til góða á Reyni sem er tveimur stigum fyrir ofan.
Víðir í Garði getur orðið mikill örlagavaldur um það hvernig fer í baráttu Reynis og Völsungs, en Víðismenn mæta þessum tveimur liðum í næstu umferðum en Víðismenn hafa ekki tapað leik síðan snemma í júlí.
Leikur Víðis og Völsungs fer fram á Nesfisksvellinum í Garði á laugardaginn kl. 14.