Reynismenn Íslandsmeistarar í 4. deild

Sandgerðingar urðu Íslandsmeistarar í 4. deild karla í knattspyrnu þegar þeir lögðu Borgnesinga í úrslitaleik sem fram fór á Nettó-vellinum í Keflavík í dag. Lokatölur urðu 7-1 fyrir Reynismenn sem töpuðu ekki leik á tímabilinu.

„Við vorum góðir í dag en Skallagrímsmenn voru kannski eitthvað þreyttari eftir að hafa leikið 120 mín. leik fyrir nokkrum dögum. Það hefur líka að segja að við erum með nokkra leikmenn í Reyni sem hafa leikið á stóra sviðinu hér á Nettó-vellinum og hafa reynslu af því að leika í efri deildum,“ sagði Magnús Þórir Matthíasson en hann skoraði þrennu á sínum gamla heimavelli en hann hefur leikið fjölda leikja með Keflavík í efstu deild. Í Reynisliðinu í dag voru nokkrir sem hafa leikið í efstu deild með Keflavík og má þar nefna Hörð Sveinsson, Unnar Unnarsson og Daníel Gylfason.


Auk þriggja marka Magnúsar Þóris skoraði Óli Baldur Bjarnason tvö mörk og þeir Max Grammel og Strahinja Pajic sitt markið hvor.

Með Reyni fara Skallagrímsmenn og Kórdrengir upp í 3. deild.

 

Reynir Íslandsmeistari í 4. deild

▼ Fleiri myndir