Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Reynismenn áfram á sigurbraut
Magnús Sverrir Þorsteinsson heldur áfram að skora fyrir Reyni, hér skorar hann gegn Hetti/Huginn í fimmtu umferð. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 27. júlí 2020 kl. 13:38

Reynismenn áfram á sigurbraut

Reynismenn fóru illa með Sindra á Blue-vellinum

Reynir Sandgerði hefur ekki tapað leik í þriðju deild karla í knattspyrnu í sumar. Í gær tóku þeir á móti Sindra sem situr í fjórða sæti deildarinnar og fóru vægast sagt illa með þá.

Það var Hörður Sveinsson sem reið á vaðið á 15. mínútu þegar hann kom Reynismönnum yfir úr vítaspyrnu. Hann var hvergi hættur því áður en flautað var til leikhlés hafði hann náð þrennunni (23' eftir vel útfærða hornspyrnu og 45' víti) og Magnús Magnússon skoraði á 37. mínútu eftir hornspyrnu. Markvörður Sindra varði skalla eftir fyrirgjöfina en Magnús var fyrstur í frákastið og afgreiddi boltann í netið, staðan því 4:0 í hálfleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sindri gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik og reyndu að klóra í bakkann en Reynismenn héldu áfram að stjórna leiknum. Þrátt fyrir það tókst Sindra að minnka muninn á 62. mínútu þegar þeir náðu góðri sókn sem endaði með glæsilegu skoti utan teigs í samskeytin.

Ferskir fætur koma inn á og bæta við mörkum

Reynir gerði einnig tvöfalda skiptingu á 56. mínútu þegar þeir Elton „Fufura“ Barros og Magnús Sverri Þorsteinsson mættu ferskir inn á. Fufura bætti við fimmta marki Reynis á 69. mínútu og á 76. mínútu skoraði Magnús sjötta markið. Magnús rak svo síðasta naglann í kistu Sindra á lokamínútu leiksins með glæsilegu skoti utan teigs, úrslit 7:1 fyrir Reyni sem stefna ótrauðir á sæti í 2. deild að ári.