Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Reynir sigraði ÍBV með fjórum stigum
Þriðjudagur 29. mars 2011 kl. 15:23

Reynir sigraði ÍBV með fjórum stigum

Reynir Sandgerði léku sinn síðasta leik í riðlinum gegn ÍBV í Vestmannaeyjum á laugardaginn þar sem þeir fóru með sigur af hólmi 82-86. Eyjamenn voru mættir með sinn allra besta mannskap og nýbúnir að vinna síðasta heimaleik með rúmum 80 stigum.

Eyjamenn litu vel út í byrjun og hirtu ógrynni af fráköstum sem skilaði þeim nokkrum tilraunum í hverri sókn. Reynismenn voru þó að hitta vel og því jafnræði á liðunum í fyrsta leikhluta en staðan eftir fyrsta fjórðung 23-23.

Í öðrum leikhluta héldu Eyjamenn áfram að hirða fleiri fráköst en gestirnir og fóru að uppskera eftir því. Þeir náðu frumkvæði og mest 9 stiga mun í stöðunni 42-33. Páll Kristinsson, skytta Reynismanna, datt í gang og setti nokkrar mikilvægar körfur rétt fyrir hálfleik og var staðan þegar liðin gengu til búningsklefa 44-41, heimamönnum í vil.

Jón Guðbrandsson, þjálfari Reynis, hefur sennilega tekið sína menn á beinið því Reynismenn fóru að hirða fráköst og spila mjög góða vörn. Liðin skiptust á að hafa forystu og var munurinn því enginn fyrir loka leikhlutann, aðeins 2 stig, 63-61.

Reynismenn lentu fljótlega fimm stigum undir í stöðunni 69-64. En góður kafli hjá Sandgerðingunum gerði gæfumuninn og komust þeir fjórum stigum yfir, 75-79. Loka sekúndur leiksins fóru síðan fram á vítalínunni þar sem eyjamenn freistuðu þess að jafna leikinn en svo fór ekki og lönduðu Reynismenn sanngjörnum sigri í höfn, 82-86.

Þessi úrslit þýða það að Reynismenn eru ennþá taplausir á útivelli í vetur og taplausir á þessu ári. Næsti leikur er við Patrek úr Kópavogi í 8 liða úrslitum 2. deildar á föstudaginn þann 1. apríl kl. 19:00 í Sandgerði.

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024