Flugger
Flugger

Íþróttir

Reynir og Þróttur töpuðu sínum leikjum en Víðir gerði jafntefli
Kristófer Páll Viðarsson náði ekki að setja mark sitt á leikinn á sínum heimaslóðum en Kristófer er frá Fáskrúðsfirði. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 6. maí 2024 kl. 10:44

Reynir og Þróttur töpuðu sínum leikjum en Víðir gerði jafntefli

Bæði lið Reynis Sandgerði og Þróttar Vogum töpuðu sínum leikjum þegar keppni hófst í annarri deild karla í knattspyrnu um helgina. Víðismenn gerðu hins vegar jafntefli við Árbæ í fyrstu umferð þriðju deildar.

Reynir - Ægir 0:3

Nýliðar Reynis tóku á móti nýliðum Ægis í fyrstu umferð annarrar deildar karla í knattspyrnu um helgina. Reynismenn unnu þriðju deild á síðasta ári en Ægir féll úr Lengjudeildinni. Eftir markalausan fyrri hálfleik komust gestirnir yfir (53’) og skömmu síðar fékk Kerston George að líta rauða spjaldið (58’) og Reynismenn því manni færri.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ægismenn bættu öðru marki sínu við á 66. mínútu og í uppbótartíma fékk Benedikt Jónsson, liðsstjóri Reynis, að sjá rautt (90’+2). Ægir innsiglaði sigur sinn með þriðja markinu skömmu áður en dómari leiksins blés til leiksloka (90’+8).

KFA - Þróttur 2:0

Lið Þróttar á síðasta tímabili en miklar mannabreytingar hafa orðið á liðinu milli ára. Mynd úr safni VF/Jón Þorkell Jónasson

Þróttarar héldu til Reyðarfjarðar á laugardaginn þar sem þeir mættu KFA í annarri deild karla.

Heimamenn komust yfir á 32. mínútu, 1:0 í hálfleik og staðan hélst þannig þar til í uppbótartíma þegar KFA gulltryggði sigurinn með öðru marki sínu (90’+5).

Árbær - Víðir 2:2

David Toro Jimenez fer vel af stað með Víðismönnum, hann skoraði seinna mark Víðis í leiknum og auðvitað stórglæsilegt mark gegn Víkingi Reykjavík í Mjólkurbikarnum fyrir skömmu. Mynd/Skjáskot af ruv.is af marki Jimenez gegn Víkingum

Víðismenn enduðu í fjórða sæti þriðju deildar á síðasta tímabili en Árbæingar einu sæti ofar. Það mátti því fyrirfram búast við jöfnum leik.

Víðismenn fengu draumabyrjun og komust yfir með marki Alex Þórs Reynissonar á fjórðu mínútu.

Árbæingar jöfnuðu leikinn á 18. mínútu en David Toro Jimenez kom Víði aftur í forystu skömmu fyrir hálfleik (43’).

Heimamenn skoruðu svo eina mark seinni hálfleiks (59’) og jafntefli því niðurstaðan.