Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Reynir gerði út um vonir Njarðvíkinga
Það var ekkert gefið eftir í nágrannaslag Njarðvíkur og Reynis í gær. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 4. september 2021 kl. 09:28

Reynir gerði út um vonir Njarðvíkinga

Tveir leikir fóru fram í annarri deild karla í knattspyrnu í gær. Þróttarar stigu stórt skref í átt að næstefstu deild þegar þeir sendu lið Kára niður í þá þriðju með stórsigri á Skaganum. Reynismenn gerðu hins vegar út um allar vonir Njarðvíkinga um sæti í Lengjudeildinni að ári.

Njarðvík - Reynir (0:2)

Það gekk á ýmsu í Suðurnesjaslag Njarðvíkur og Reynis í gær þar sem Njarðvík þurfti á sigri að halda til að eygja vonir um að komast upp. Leikurinn hafði hins vegar litla þýðingu fyrir Reynismenn aðra en að spila fyrir heiðurinn en sæti Reynis er öruggt áfram í deildinni.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að þótt Reynismenn ætluðu ekkert að gefa eftir þótt leikurinn hefði lítið að segja fyrir þá og þeir komust yfir á 8. mínútu með marki frá Ivan Prskalo.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Talsverður áhorfendafjöldi mætti á leikinn og voru stuðningsmenn Reynis áberandi og létu þeir vel í sér heyra – og það gerðu þeir svo sannarlega eftir rúmlega hálftíma leik þegar Benedikt Jónssyni var vikið að velli fyrir að brjóta á Kenneth Hogg sem var við það að sleppa í gegn um vörn Reynis.

Það tók dómara leiksins góðan tíma að komast að þessari niðurstöðu og áttu þeir það að auki í vandræðum með að ákveða hvaða leikmaður það væri sem hefði brotið á Hogg. Rétt um mínútu síðar gerðist annað vafasamt atvik þegar Robert Blakala, markvörður Njarðvíkur, virtist brjóta á Magnúsi Magnússyni í eigin teig og hvorki var dæmt víti né fór rautt spjald á loft. Nú var allt á suðupunkti á Njarðvíkurvellinum, bæði leikmönnum og áhorfendum hljóp kapp í kinn og fengu dómarar leiksins að heyra það.

Stuðningsmenn Reynis voru ekki sáttir við dómara leiksins þegar ekkert var dæmt á Robert Blakala.

Reynismenn voru því manni færri og marki yfir þegar blásið var til hálfleiks.

Það færðist jafnt og þétt aukin harka í leikinn og í seinni hálfleik var ekkert gefið eftir.

Manni fleiri voru Njarðvíkingar meira með boltann en þétt vörn Sandgerðinga gaf þeim fá færi til að skapa sér færi. Rúnar Gissurarson, markvörður Reynis, var eins og kóngur í veldi sínu, las leikinn vel og hirti flestallar fyrirgjafir sem komu inn í teig Reynismanna.

Njarðvík sótti stíft en Sandgerðingar vörðust vel og beittu hættulegum skyndisóknum – og á 68. mínútu tvöfölduðu þeir forystuna úr einni slíkri. Þar var að verki Sæþór Ívan Viðarsson með góðu skoti sem Blakala náði ekki að verja.

Njarðvíkingar fengu sín færi en Reynismenn voru fastir fyrir í vörninni og komust fyrir allar tilraunir þeirra.

Heimamenn vogu slegnir eftir seinna markið og það tók þá smá tíma að komast aftur inn í leikinn en þeir gáfust ekki upp og bættu í pressuna á Reyni enda mikið í húfi – en allt kom fyrir ekki og baráttuglaðir Sandgerðingar lönduðu góðum 0:2 sigri á útivelli.

Leikmenn og stuðningsmenn Reynis fögnuðu vel og innilega að leik loknum.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og neðst á síðunni má sjá safn mynda úr leiknum.


Kári - Þróttur (0:5)

Botnlið Kára reyndist ekki mikil fyrirstaða fyrir topplið Þróttar í gær þegar Þróttur vann stórsigur og sendi Kára niður um deild. Þróttur er komið langleiðina með að tryggja sér sæti í næstefstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins en Þróttarar eru með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar og á tvo leiki eftir.

Völsungur er í næstefsta sæti og KV í því þriðja, sjö stigum á eftir Þrótti. Bæði þessi lið leika í dag og fari svo að KV tapi sínum leik gegn Leikni Fáskrúðsfirði eru Þróttarar öruggir upp.

Það var Ragnar Þór Gunnarsson sem kom Þrótti í forystu þegar hann skoraði með öxlinni eftir hornspyrnu (12'). Ekki fallegasta markið en mikilvægt.

Rubén Lozano Ibancos tvöfaldaði forystuna á 38. mínútu þegar hann hamraði boltann frá vítateigspunkti og í netið. 0:2 í hálfleik.

Í seinni hálfleik bættu Þróttarar við tveimur mörkum á skömmum tíma þegar Alexander Helgason (57') og Ibancos (60') komu þeim í 0:4.

Það var svo Alexander sem átti síðasta orðið þegar hann skoraði fimmta markið (89') og stórsigur Þróttar í höfn.

Rubén Lozano Ibancos skoraði tvö í gær. Hér er hann að skora gegn Haukum fyrr í sumar.

Njarðvík - Reynir (0:2) | 2. deild karla 3. september 2021