Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Reynir af toppnum í 2. deildinni
Fimmtudagur 30. júlí 2009 kl. 09:14

Reynir af toppnum í 2. deildinni

Suðurnesjaliðin Njarðvík og Víðir unnu bæði leiki sína í 2. deild karla í knattspyrnu í gær, en Reynismenn töpuðu hins vegar illa og féllu úr toppsætinu fyrir vikið. Njarðvíkingar unnu stórsigur á ÍH/HV, 4-0 á Njarðtaksvellinum og Víðir lögðu KS/Leiftur á Garðsvelli á meðan Reynir tapaði 3-0 fyrir Magna á Grenivík.


Njarðvíkingar hafa staðið í stórræðum að undanförnu þar sem tveir sterkir leikmenn yfirgáfu liðið sem og þjálfari liðsins Marko Tanasic. Helgi Bogason er þó mættur aftur í brúnna og stýrði liðinu til öruggs sigurs í gær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Rafn Markús Vilbergsson skoraði fyrsta mark leiksins, úr vítaspyrnu, á 15. mínútu og Kristinn Björnsson jók forskotið rétt fyrir hálfleik.


Rafn Markús var svo aftur á ferð um miðjan seinni hálfleik þar sem hann skoraði tvö mörk með stuttu millibili og gulltryggði sigur og þrennuna.


Víðismenn hafa verið í fallbaráttu í sumar, en þrátt fyrir að vera enn í 10. sæti eru þeir farnir að nálgast liðin í efri hlutanum. Sigurinn í gær var mikilvægur, en Cenic Marko skoraði eina mark leiksins, á 41. mínútu.


Reynismenn hafa mikið gefið eftir á síðustu vikum þar sem þeir hafa einungis unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni. Þeir máttu játa sig sigraða gegn Magna á útivelli í gær þar sem mátti vart á milli sjá hvort liðið var á toppnum og hvort í fallbaráttu.


Magnamenn komust yfir með laglegu marki eftir rúmlega hálftímaleik og bætti svo við tveimur mörkum í seinni hálfleik án þess að Reynismenn ógnuðu forystunni að nokkru ráði.


Eftir 14 umferðir er Grótta komin upp fyrir Reyni á toppi deildarinnar. Liðin eru bæði með 28 stig, en Seltirningar eru með hagstæðara markahlutfall. Njarðvíkingar koma þar þremur stigum á eftir og eru líklegir til að blanda sér í baráttuna um sæti í 1. deild.


Staðan


Mynd úr safni/umfn.is