Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Reyni að fara eins oft og ég get í Höllina,“ segir þjálfari Keflvíkinga
Föstudagur 15. febrúar 2013 kl. 21:00

„Reyni að fara eins oft og ég get í Höllina,“ segir þjálfari Keflvíkinga

Sigurður Ingimundarson á nánast orðið fast sæti í Laugardalshöllinni. Hann hefur farið þangað æði oft, bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann fer nú með topplið Keflavíkurstúlkna sem mæta Val á laugardag klukkan 13:30. „Ég fer nú kannski ekki á hverju ári, en ansi oft,“ sagði Sigurður í samtali við Víkurfréttir. „Þetta er heldur merkilegt og alltaf jafn gaman. Þetta er sérstök stemning sem maður upplifir bara einu sinni á ári ef vel fer. Hún venst ekkert eða eldist af neinum.“

Sigurður viðurkennir að hann fái nett fiðrildi í magann fyrir svona leiki. „Annars væri maður ekki að þessu.“ Þjálfarinn þaulreyndi segir leikmenn sína vera spennta fyrir leiknum og mæta tilbúnar til leiks. Keflvíkingar máttu sætta sig við tap gegn Valsstúlkum á dögunum í deildarkeppni. Slíkt tap ætti ekki að hafa mikil áhrif á bikarúrslitin að mati Sigurðar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við vorum afskaplega lélegar þar. Valsstúlkur voru svo aftur á móti mjög duglegar í þeim leik. Þetta var mjög sérstakur leikur hjá okkur. Við vorum óvenju slakar. Það sýnir það bara að bæði lið eru mjög góð.“ Sigurður telur að leikurinn sem tapaðist gegn Val á dögunum verði jafnvel til þess að hvetja Keflavíkurstúlkur til dáða í bikarúrslitunum. „Eftir því sem maður vinnur fleiri leiki í röð þá kemur ákveðin þægindatilfinning sem þarf í raun ekki að vera til staðar. En þegar þú tapar þá þarftu að fara að skoða hlutina betur og öðruvísi. Það held ég að sé bara af hinu góða.“

Keflvíkingar hafa aðeins tapað tveimur leikjum á þessu tímabili og það verður að teljast ansi vel af sér vikið. „Það segir lítið á laugardaginn. Við þurfum að mæta í Höllina og spila.“

En hvað telur Sigurður að helst beri að varast hjá Valsliðinu? „Þær eru með góða leikmenn og það eru nokkrir hlutir sem þær gera sem við þurfum að stoppa. Ef ég ætti að nefna ákveðna leikmenn þá væri það helst Kristrún (Sigurjónsdóttir) sem gæti skipt sköpum.“ Ekkert hrjáir leikmenn Keflavíkurliðsins og þær bíða spenntar eftir tækifæri til þess að hreppa bikarinn eftirsótta í Laugardalshöll. „Mér finnst gaman að fara þangað og ég reyni að fara eins oft og ég get,“ sagði Sigurður að lokum.