Reyndu HK-ingar að múta Grindvíkingum?
KSÍ sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem kom fram að ekkert saknæmt hafi fundist í rannsókn á því hvort reynt hafi verið að hagræða úrslitum í leik HK og Grindavíkur sem fram fór 18. september síðastliðinn. Forsaga málsins er sú að leikmaður úr HK mun hafa leitað til leikmanns Grindavíkur með það í huga að hagræða úrslitum. Grindvíkingar fóru strax með málið til KSÍ sem lét rannsaka málið.
KSÍ óskaði í kjölfarið eftir aðstoð frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sem rannsakaði málið. Rannsókn er nú lokið og hefur hún ekki annað leitt í ljós en að samskipti voru á milli leikmannanna sem ekki var hægt að sýna fram á að væru saknæm.
Það er mat KSÍ að viðbrögð forystumanna viðkomandi félaga hafi komið í veg fyrir að nokkuð óeðlilegt gerðist ef slíkt var í raun ætlunin.
Leikurinn endaði með 0-2 sigri Grindvíkinga þar sem Aljosa Gluhovic og Gilles Mbang Ondu skoruðu mörk Grindvíkinga í fyrri hálfleik.
VF-MYND/JJK: Aljosa Gluhovic skoraði fyrir Grindavík í þessum umrædda leik.