Reykjanesmótið: Njarðvík og Haukar sigra
Njarðvík og Haukar unnu leiki sína á Reykjanesmótinu í körfuknattleik í kvöld.
Haukar lögðu Keflvíkinga óvænt, 80-86, í fyrri leik kvöldsins. Hafnfirðingar mættu ákveðnir til leiks og náðu strax undirtökunum. Keflvíkingar voru að reyna að saxa á forskotið en varð ekkert ágengt og þurftu á endanum að sætta sig við 6 stiga tap. Anthony Glover var þeirra besti maður, en nýi Kaninn, Jimmy Miggins, náði sér ekki á strik enda nýkominn til landsins og að stíga upp úr erfiðum meiðslum.
Keflvíkingar þurftu því að stóla á sigur Grindvíkinga í seinni leiknum til að eiga möguleika á að komast í úrslit mótsins.
Vonin varð að engu þegar Njarðvíkingar lögðu Grindvíkinga að velli, 78-77, eftir spennandi lokasekúndur.
Grindvíkingar hófu leikinn mun betur og leiddu 22-13 eftir fyrsta leikhluta. Njarðvíkingar réttu sinn hlut í öðrum leikhluta og komust yfir fyrir hálfleik með 10-0 spretti, staðan 37-32.
Tæpt var á mununum í seinni hálfleik og munaði ekki meira en 5 stigum á liðunum. Grindvíkingar höfðu þriggja stiga forskot þegar fjórði leikhluti hófst, en Njarðvíkingar voru sterkari á lokasprettinum.
Darrel Lewis var stigahæstur Grindvíkinga með 21 stig og 12 fráköst. Brenton Birmingham var stigahæstur hjá Njarðvík, en Matt Syman, nýi leikmaður þeirra kom næstur með 14.
Grindavík og Njarðvík munu því eigast við í úrslitum Reykjanesmótsins á mánudag, en Keflavík og Haukar spila um bronsið.
Tölfræði leiksins