Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Rétta úr kútnum með glæsisigri
Föstudagur 11. ágúst 2006 kl. 02:08

Rétta úr kútnum með glæsisigri

Grindvíkingar unnu glæsilegan sigur á Breiðabliki í Landsbankadeild karla í kvöld, 4-2.

Leikurinn, sem fór fram á Grindavíkurvelli var fjörlegur eins og lokatölu gefa til kynna, þrátt fyrir að veðuraðstæður hafi ekki verið eins og best verður á kosið. Völlurinn var blautur en engu að síður í góðu ásigkomulagi.

Bæði lið þurftu sárlega á stigunum að halda þar sem þau berjast í bökkum við botn deildarinnar, en Grindvíkingar höfðu ekki unnið leik í deildinn i frá 22. júní þegar þeir lögðu KR 5-0. Síðan þá töpuðu þeir gegn Keflavík, ÍA og FH og gerðu jafntefli við Fylki.

Leikurinn í kvöld byrjaði vel þar sem liðin voru að komast í ágæt færi, en hinn sjóðheiti Jóhann Þórhallsson kom heimamönnum yfir með glæsilegu marki á 20. mínútu
Hann átti skot í varnarmann og fékk boltann aftur og brást ekki bogalistin í það skiptið. Boltinn söng í netmöskvunum, óverjandi fyrir Hjörvar Hafliðason í marki Blika.

Þannnig stóðu leikar í hálfleik eftir að liðin höfðu skipst á að hafa yfirhöndina í kalsanum.

Óli Stefán Flóventsson kom Grindvíkingum yfir með góðum skalla á 53. mínútu og leit allt vel út fyrir þá gulu.

Þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum fór allt í gang. Markahæsti maður Íslandsmótsins, Marel Jóhann Baldvinsson, minnkaði muninn í 2-1 með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var á Orra Frey Hjaltalín, en Óskar Örn Hauksson kom Grindavík í 3-1 með góðu skoti eftir að hafa prjónað sig í gegnum vörn Blika eins og honum er einum lagið.

Óðinn Árnason, fyrirliði Grindvíkinga, fékk reisupassann á 78. mínútu fyrir brot á Marel, sem skorar sitt annað mark, einnig úr vítaspyrnu, en Helgi Már Helgason átti annars ágætan leik í marki Grindavíkur og mun eflaust koma betur inní næstu leikjum eftir að hafa tekið við stöðu aðalmarkvarðar eftir að Colin Stewart hélt af landi brott.

Gestirnir voru ekki lengi í Paradís eins og þar segir og þrátt fyrir liðsmuninn létu Grindvíkingar ekki deigan síga og Óskar vængstýfði Blikana endanlega með enn einu frábæru markinu á 86. mín.

Það var því Óskar sem sá um Breiðablik, en hann gerði einmitt tvö mörk gegn þeim þegar liðin mættust í fyrri umferðinni.

Með sigrinum færðu Grindvíkingar sig upp í 6. sæti, með jafnmörg stig og Blikar og KR, en með mun betri markatölu.

Næsti Leikur Grindvíkinga er í Vestmannaeyjum gegn ÍBV á sunnudag 20. ágúst, en það sama kvöld mætast FH og Keflavík á heimavelli þeirra síðarnefndu.

 

VF-Myndir/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024